Guðrúnar Oddsdóttur vökukona í Hólavallakirkjugarði lést árið 1838 og var fyrsta manneskjan sem hlaut eilífðardvalarstað í þeim fallega garði. Vökumaður eða -kona er sá eða sú sem vakir yfir sálum hinna sem á eftir koma og er hlutskipti sem fellur venjulega í skaut fyrsta ábúanda garðsins.
„Saga Guðrúnar Oddsdóttur er merkileg saga,“ segir Guðrún Rannveig höfundur bókarinnar. Guðrún Oddsdóttir var gift Þórði Sveinbjörnssyni sýslumanni og var saga þeirra var þyrnum stráð sorgarsaga á köflum. „Hún var svolítið eldri en hann og studdi við bak hans á meðan hann var í námi. Þau eignuðust fimm börn saman sem öll létust á unga aldri.“
Kirkjugarðar ljóðrænir staðir
Hugmyndin um að yrkja um Guðrúnu Oddsdóttur kviknaði þegar nafna hennar, sem er heilluð af kirkjugörðum, heyrði um af fyrirbærinu vökumanni og komst að því að sú sem því hlutverki gegndi í Hólavallakirkjugarði væri kona. „Mér finnst gamlir garðar eins og þessi alveg magnaðir. Ég nýt þess að ganga um, lesa grafskriftir og velta fyrir mér sögu og lífi þeirra sem þar hvíla,“ segir hún dreymin. „Þetta eru afskaplega ljóðrænir staðir sem auðvelt er að sækja innblástur í.“
Vökukonan Guðrún er grafin nyrst í garðinum og hjá leiði hennar er stór kross og söguspjald sem segir frá hlutverki hennar, sem ekki þykir eftirsótt. Það þótti ekki vinsælt að bjóða ástvini sína fram í þetta hlutverk. Vökumönnum er jafnan lýst sem ófrýnilegum ásýndum og ekki ákjósanlegur félagsskapur. „Það var sagt að það væri lítil grafarró í kringum legsstað vökumanns svo fólk vildi ekki einu sinni jarða ástvini sína nálægt honum,“ segir Guðrún.