Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hver var þessi „kona hans“?

Mynd: Pexels / Pexels

Hver var þessi „kona hans“?

19.06.2019 - 16:17

Höfundar

Ljóðskáldið Guðrún Rannveig Stefánsdóttir gefur í dag, á sjálfan kvenréttindadaginn, út bókina Vökukonan í Hólavallagarði. Verkið er 30 kvæða ljóðabálkur sem hún yrkir til heiðurs vökukonunnar sem hvílir í garðinum og vakir yfir sálum hinna sem þar dvelja. Útgáfuhóf fer fram í Kjarvalsstofu kl 17.

Guðrúnar Oddsdóttur vökukona í Hólavallakirkjugarði lést árið 1838 og var fyrsta manneskjan sem hlaut eilífðardvalarstað í þeim fallega garði. Vökumaður eða -kona er sá eða sú sem vakir yfir sálum hinna sem á eftir koma og er hlutskipti sem fellur venjulega í skaut fyrsta ábúanda garðsins.

„Saga Guðrúnar Oddsdóttur er merkileg saga,“ segir Guðrún Rannveig höfundur bókarinnar. Guðrún Oddsdóttir var gift Þórði Sveinbjörnssyni sýslumanni og var saga þeirra var þyrnum stráð sorgarsaga á köflum. „Hún var svolítið eldri en hann og studdi við bak hans á meðan hann var í námi. Þau eignuðust fimm börn saman sem öll létust á unga aldri.“

Kirkjugarðar ljóðrænir staðir

Hugmyndin um að yrkja um Guðrúnu Oddsdóttur kviknaði þegar nafna hennar, sem er heilluð af kirkjugörðum, heyrði um af fyrirbærinu vökumanni og komst að því að sú sem því hlutverki gegndi í Hólavallakirkjugarði væri kona. „Mér finnst gamlir garðar eins og þessi alveg magnaðir. Ég nýt þess að ganga um, lesa grafskriftir og velta fyrir mér sögu og lífi þeirra sem þar hvíla,“ segir hún dreymin. „Þetta eru afskaplega ljóðrænir staðir sem auðvelt er að sækja innblástur í.“

Vökukonan Guðrún er grafin nyrst í garðinum og hjá leiði hennar er stór kross og söguspjald sem segir frá hlutverki hennar, sem ekki þykir eftirsótt. Það þótti ekki vinsælt að bjóða ástvini sína fram í þetta hlutverk. Vökumönnum er jafnan lýst sem ófrýnilegum ásýndum og ekki ákjósanlegur félagsskapur. „Það var sagt að það væri lítil grafarró í kringum legsstað vökumanns svo fólk vildi ekki einu sinni jarða ástvini sína nálægt honum,“ segir Guðrún. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðrún Rannveig Stefánsdótti
Guðrún Rannveig Stefánsdóttir höfundur bókarinnar

Maðurinn tók saman við ráðskonuna

Hvernig kom það þá til að Guðrúnu áskotnaðist þetta óvinsæla hlutverk? „Guðrún deyr 59 ára gömul eftir mikil veikindi en hún var sögð hafa þjáðst af bæði tæringu og hugarvíli,“ segir Guðrún. „Þegar hún fer er maður hennar byrjaður að vera með ráðskonu þeirra. Hún hét Christine, var eftirsótt blómarós.“

Þegar þarna er komið sögu stendur yfir leit að vökumanni svo hægt sé að vígja kirkjugarðinn. „Maðurinn býður Guðrúnu konu sína sjálfur fram í hlutverkið. Hún hefur sjálf líklega haft minnst um það að segja.“

Vökukona sem öfug ljósmóðir

Guðrún segir að með bókinni vilji hún draga fram það fallega við vökumannahlutverkið. „Ég sé hana fyrir mér sem sálnamóður. Í einu ljóðinu tala ég um hana sem öfuga ljósmóður sem tekur við sálum eftir að þær kveðja jarðvistina.“

Bókin Vökukonan í Hólavallagarði er þrískipt. Í fyrsta og þriðja hluta segir Guðrún frá komu sinni í garðinn og í þriðja hluta fjallar hún einnig um næturvaktina og hina endalausu vöku. Í öðrum hluta eru það hins vegar aðrar konur í garðinum sem segja sögu sína. Guðrún segist sjálf hafa orðið vör við það á göngum sínum um garðinn að á legsteinum karla stendur gjarnan eitthvað um þá, hverjir þeir voru og hvaðan, en við nafn konunnar sem oft er haft undir nafni eiginmannsins stendur gjarnan ekkert nema „kona hans“. Þetta varð til þess að Guðrún ákvað að gefa þessum konum orðið í bók sinni.

Gleymdu konurnar fá orðið

Til að skrifa sögur hinna gleymdu kvenna gekk Guðrún um garðinn og fékk innblástur frá nöfnunum sem hún rakst á, táknum á steinum og umhverfinu. „Ég sé ljóðin fyrir mér eins og drauma um liðna tíð eða minningar úr lífi kvennanna. Ef maður er forvitinn að eðlisfari verður maður forvitinn um það hverjar þessar óskilgreindu konur eru.“

Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur sem ritar for- og eftirmála bókarinnar hefur sjálf grúskað í sögu garðsins og Guðrúnar vökukonu. „Við fórum að tala saman og úr varð að við ákváðum að gera bókina saman, ég með ljóðabálkinn og hún staðreyndirnar.“

Þann 27. júní verður efnt til sögugöngu um garðinn en þar rekja þær Sólveig og Guðrún sögu Guðrúnar Oddsdóttur vökukonu og tengja ljóðin saman við ýmsa staði í garðinum.

Rætt var við Guðrúnu höfund bókarinnar í Víðsjá en allt innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Las bara smásögur í hálft annað ár

Bókmenntir

Skrollað í gegnum klósettpásuna