Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Hver sem er getur orðið fíkill“

Mynd: Stikla - Lof mér að falla (201 / Skjáskot/Youtube

„Hver sem er getur orðið fíkill“

26.08.2018 - 09:00

Höfundar

Kvikmyndin Lof mér að falla eftir leikstjórann Baldvin Z og Birgi Örn Steinarsson fjallar um ungmenni sem leiðst hafa út í harðan heim eiturlyfjaneyslu. Þeir segja handritið byggt á raunverulegum frásögnum fíkla, sögum sem í sumum tilfellum þurfti að tóna niður fyrir hvíta tjaldið til þess að gera þær trúverðugri.

Birgir Örn segir að myndin sé alfarið byggð á frásögnum úr raunveruleikanum. „Það var Jóhannes Kr. sem hafði nýlega gert þátt, Kompás á RÚV. Hann var í samskiptum við marga unga fíkla og hreinlega gaf okkur kontaktinn,“ segir hann.

Erfiðast að gera sögurnar trúverðugar

Þá segir hann að Baldvin hafi fengið dagbók frá Kristínu Gerði. „Við gáfum okkur bara eitt, tvö ár í að ræða við þessa krakka, safna sögum,“ segir hann. „Við prófuðum fyrst að gera handrit sem var einhver söguhugmynd, hentum henni alfarið. Ákváðum að gera mynd upp úr þessum sögum, sem við saumuðum bara saman.“

„Okkur hefði aldrei getað dottið þessir hlutir í hug,“ segir Baldvin. „Þetta er svo ótrúlega fjarlægt manni. Oft var maður bara eitthað svo orðlaus yfir þessum sögum.“ Hann bætir við að erfiðast hafi verið að setja sögurnar saman í bíómynd og gera þær trúverðugar. Birgir Örn tekur undir það og segir: „Það var eiginlega eina skiptið sem við breyttum einhverju, það var þegar við þurftum kannski aðeins að draga úr hlutunum þannig að þeir yrðu ekki of ýktir í myndinni,“ segir hann og er þá að ræða um raunverulega atburði.

Engin poppkornsútgáfa af raunveruleikanum

Hann bætir þó við að ekki sé um að ræða einhverja poppkornsútgáfu af raunveruleikanum. Baldvin bætir við: „Það mun enginn trúa þessu, við bara gátum ekki boðið áhorfendum upp á þetta, hreinlega.“ Birgir Örn undirstrikar að ofbeldi sé að finna í myndinni, af andlegum, líkamlegum og kynferðislegum toga. Þeir nefna báðir að krefjandi hafi verið að fara inn í heim fíklanna, „og vera kominn á þann stað að maður skilur afhverju þau tóku þessar ákvarðanir,“ segir Birgir Örn. „Maður hefur samúð með þeim líka. Þetta er svolítið magnað, að skoða þetta frá þessu sjónarhorni, skoða þeirra fortíð og gefa þeim færi á að tala.“

Ungir krakkar í „Dexter-leiðangri“

Baldvin bætir við: „Það er þessi double standard hjá þessum krökkum sem er svo magnaður. Þau sögðu nokkur frá því að þau voru að ræna menn. En það var „allt í lagi“ af því að þessir menn sem þau rændu eru menn sem þau kynntust í gegnum einhverjar síður og þetta voru menn að kaupa ngar stúlkur.“ Baldvin útskýrir að þetta hafi verið eins konar Dexter leiðangur hjá þeim, „[þau hugsðu] bara: Við rænum perrana og það er allt í lagi. Og það er í lagi að sprauta þá með nálum sem eru smitaðar af einhverju“, segir hann. Og bætir við: „Þetta var bara ótrúlegt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lof mér að falla
Stilla úr kvikmyndinni Lof mér að falla

„Líka hvað þetta var hversdagslegt fólk. Dílerinn er ekki endilega þessi vöðvastælti töffari. Það kemur svolítið á óvart hverjir eru oft að selja lyfseðilsskyld lyf. Allskonar hlutir. Hverjir eru að kaupa sér ungar stelpur í gegnum netið og svona. Við fengum alveg að sjá þetta.“

Baldvin minnist sögu frá einum viðmælanda, ungri stúlku. „Einu sinni lenti ein stelpan á félaga foreldra sinna. Hún mætir heim til hans og þá er þetta hann. Þá brýst hann í vörn og segir: Já, ég vissi að þú værir að gera þetta og nú segi ég foreldrum þínum. Og hún svarar: Ég segi mömmu og pabba að þú hafir verið að reyna þetta.“ Baldvin ítrekar að þetta sé lítill heimur, sérstaklega á Íslandi.

Athygli og tími mikilvægasta gjöfin

Birgir Örn og Baldvin Z eru báðir feður og aðspurðir hvort að það hafi haft áhrif á þá að kynnast þessum harða heimi eiturlyfjaneyslu í gegnum frásagnir ungra fíkla, dæsa þeir og er greinilegt að sú er raunin. „Ég ætla að reyna að vera besta foreldri í heimi,“ segir Baldvin. „Ég er örugglega hysterískur í þessu öllu.“ Hann segir að þó hafi helstu áhrifin verið að hann hafi alltaf haft fordóma gegn fíklum sem séu nú allir farnir. „Ég er búinn að átta mig á því að hver sem er getur orðið fíkill,“ segir hann.

Baldvin Z, kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur (skjáskot úr Ísþjóðinni)
 Mynd: Ísþjóðin - RÚV
Baldvin Z

Birgir Örn útskýrir síðan að ef eitthvað mynstur sé að finna í þessu sé það að krakkarnir, sem koma ekki endilega af slæmum heimilum, hafi þó gjarnan upplifað sig utanveltu á heimilinu. „Það var oft þannig að, eins og í myndinni okkar, þá kemur aðalpersónan Magnea frá brotnu heimili,“ útskýrir hann. „Foreldrar hennar eru búin að skilja og eru bæði að hefja nýjar fjölskyldur einhvernveginn. Hún finnur sig á hvorugum staðnum. Og hvað er það í rauninni sem þú getur gefið barninu þínu? Það er athygli og tími, ekkert annað.“

Baldvin Z og Birgir Örn Steinarsson voru í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 þann 24. ágúst 2018.