Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hver kynslóð ákveður hvað er list

Mynd: Starkaður / Starkaður

Hver kynslóð ákveður hvað er list

06.05.2018 - 08:45

Höfundar

„List er góð í því að fara á móti því sem talið er sannleikur. En er núna þörf á einhverri staðfestu? Einhverju svari við því póstmóderníska viðhorfi sem sérhæfir sig í að spyrja spurninga en hefur ekki endilega áþreifanleg áhrif?“ Starkaður Sigurðarson veltir fyrir sér Turner tilnefningum og útskriftarsýningu Listaháskólans í Víðsjárpistli.

Starkaður Sigurðarson skrifar:

Það sem list er er kannski bara afstaða, tól til að notfæra sér. Einhverskonar upptakari, eða nál eða tvinni til að sauma saman veruleika. Einhverntíman um 1970, eða jafnvel fyrr, eftir gosbrunn Duchamps 1917, eftir að list varð þetta fyrirbæri sem getur verið hvað sem er, opnuðust óteljandi leiðir til að sjá heiminn. Og í þessu opna umhverfi er það hver kynslóð, hver einstaklingur, sem ákveður hvað list er. Í dag, eins og oft áður, lifum við í flóknum, erfiðum, óendanlega áhugaverðum tíma.

Fyrir nokkrum dögum var tilkynnt hverjir væru tilnefndir til Turner verðlaunanna. Bresk verðlaun sem heiðra listamann, eða hóp, og sýningu á liðnu ári. Stór verðlaun sem oft segja til um hvað er áhugavert eða mikilvægt, eða þá hvað vekur athygli, í samfélaginu í dag. Á lista eru Naeem Mohaiemen, fæddur í Bretlandi en uppalinn í Bangladesh, og er að læra til Doktors í mannfræði í New York. Verkin hans tala um heimsbyggðina, söguna, eftirlendufræði, Samtök Hlutlausra Ríkja, og frænda sinn sem vonaðist til að Þjóðverjar myndu frelsa Indland frá bretunum. Charlotte Prodger, fædd í Bournemouth en býr í Glasgow, var tilnefnd fyrir innilegt myndbandsverk þar sem hún les í sögu Bridgit, nýsteinaldar guð eða goð, þar sem myndefnið er skotið yfir 16 ára tímabil og allt með símanum hennar. Luke Willis Thompson er yngstur á lista, fæddur 1988 á Nýa Sjálandi. Autoportrait, eða Sjálfsmynd, er verk sem hann vann með Diamond Reynolds, en hún tók upp í beinni mínúturnar þar sem lögreglumaður skaut og drap kærastan hennar, Philando Castile, í Minnesota í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum. Verkið er myndband af Reynolds í svart-hvítu, það líkir við filmu portrett hans Warhol, og stendur sem einhverskonar systur myndband við það sem allur heimurinn sá á netinu af henni og síðustu sekúndum hennar kærasta.

Fjórða og síðasta tilnefningin er hópur af fólki sem kallar sig Forensic Architecture. Þýtt hugsanlega sem: Réttar-Arkítektúr. Þeirra verk eru víðáttumikil, en mætti skilgreina semrannsóknir. Verkin, í ýmsum miðlum, rýna bæði í áþreifanlegan arkítektúr og þann sem er hægt að finna, og vinna með, á netinu og í tölvum og símum. Verkin eru unnin í þeim tilgangi að hjálpa mannréttindasamtökum, alþjóðlegum saksóknörum, stjórnmála og umhverfismála hópum að safna og kynna sönnunargögn. Þetta er 15 manna hópur, stofnaður af arkítektinum Eyal Weizman sem fæddur var í Ísrael og hafa verkefni hans þar í landi verið kölluð „Fake News.“ Og þá má nefna að í þessum hópi er meðal annars Stefán Laxness arkítekt, sem rannsakandi og verkefnafulltrúi. En hópurinn var tilnefndur til Turner verðlaunanna fyrir sýningu, eða kynningu, á efni sem sýndi það hvernig Þýsk yfirvöld voru tengd öfga-hægri hópi sem stóð fyrir morði á hinum 21 árs gamla Halit Yozgat í Kassel árið 2006.

Þessir listamenn hafa ýmist sameiginlegt. Hjá hverjum þeirra er spurningin: Er þetta list? gild spurning, ef gamaldags. Reyndar segir Weizman um Forensic Architecture að þau telji sig ekki vera listamenn, þótt þau sýni sönnunargögn sín á listasöfnum sem og í réttarsal. Hann heldur áfram, segir að það sé umhugsunarvert hvað Turner verðlaunin vilji frá þeim. Hvort þau vilji styðja við málstaðinn, eða hvort þetta leiðir til þess að peningamaskína listheimsins éti þau upp. Weizman segir: „Síðustu áratugina hefur list verið mjög góð í því að flækja hugmyndina af sannleikanum, að lýsa því hvernig sögurnar sem okkur eru sagðar eru ekki eins og þær sýnast, að list er um að efast. Okkur langar að sýna annan möguleika listarinnar. Möguleiki sem getur tekist á við efasemdir, og notar fagurfræðilegar aðferðir til að yfirheyra þessar efasemdir og þennan sannleika.“ Það er að segja, eins og annar meðlimur hópsins, Christina Varvia, orðaði það: Við búumst við niðurstöðum.

Þetta er áhugavert samhengi fyrir list. Og hugsanlega eitthvað öðruvísi en hefur tíðkast. List hefur, undanfarna áratugi, hallað meira að því óræða, það sem ekki er hægt að segja. List er góð í því að fara á móti því sem talið er sannleikur. En er núna þörf á einhverri staðfestu? Einhverju svari við því póstmóderníska viðhorfi sem sérhæfir sig í að spyrja spurninga en hefur ekki endilega áþreifanleg áhrif? Á endanum er list um okkur, raunveruleikann okkar, bæði um hvernig hann lýgur og hvernig við nálgumst sannleikann. Ef við lærum eitthvað frá verkum Forensic Architecture þá er það að það er erfitt að nálgast sannleikann, og til þess þarf margt fólk, jafnvel heilt samfélag. Á tíma tölvunnar eru svo mikið af upplýsingum, myndum, myndböndum, frásögnum, misfellum, að það er auðveldast að láta þetta allt streyma yfir sig. En úr þessum gögunm er líka hægt að endurbyggja nákvæma mynd af þeim raunveruleika sem við búum í, það er að segja, að yfirheyra raunveruleikann, spila hann aftur, með hjálp þessara upplýsinga, myndin af matnum þínum, símtalið við ömmu, myndband sem einhver annar tekur af þér óvart, sjónlína hermanns að ungum mótmælendum handan við hornið, hljóð af byssuskoti.

Laugardaginn, 28. apríl, opnaði útskriftarsýning Meistaranema í myndlist og hönnun frá Listaháskólanum. Sýningin er í Gerðarsafni í Kópavogi og er opin öllum ókeypis. Þetta er fólk sem líka hefur þurft að svara því hvað list getur gert, hvað við getum gert núna í dag með þeim tólum sem okkur býðst. Eðli náms er að leyfa sér mistök, að rannsaka hvað virkar og hvað ekki, hvað maður getur látið tala, og hvað gerist þegar hlutur er þögull. Í þéttsetnu sýningarrými koma fram tólf hugmyndir um nútímann. Hverjar eru niðurstöðurnar? Sannleikur verður til í túlkun, svör eru ekki heilög, við getum ekki sagt endanlega að list sé þetta eða hitt. En hún er hér, og hún er notuð til að skoða, horfa, breyta, læra. Tólin sem list hefur aflað sér, stór og smá, leyfa listamanninn að verða að einhverju sem kannski sést ekki nógu oft nú til dags á opinberum vettvangi, einhver sem leitar uppi sannleik. Þetta eru tól sem yfirheyra raunveruleikann, eitthvað sem nauðsynlegt er að læra að gera.