Hver er þessi Mike Pence?

03.09.2019 - 12:29
epaselect epa07672994 US Vice President Mike Pence speaks during the launching of 'Latinos for Trump' coalition at the DoubleTree by Hilton Hotel Miami Airport & Convention Center in Miami, Florida, USA, 25 June 2019. 'Latinos for Trump' coalition is a national effort to mobilize Latino supporters of President Trump during his 2020 election campaign.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
 Mynd: EPA
„Ég er kristinn, íhaldsmaður og Repúblikani, í þessari röð.“ Þannig lýsir Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sjálfum sér. Pence er væntanlegur í opinbera heimsókn til Íslands, á morgun, 3. september.

Um 36 ár eru síðan sitjandi varaforseti Bandaríkjanna kom síðast til Íslands. Hér verður litið stuttlega yfir feril Pence, ris hans upp metorðastigann í bandarískum stjórnmálum, og hvers vegna komu hans hingað til lands er mótmælt áður en hann hefur stigið fæti á land.

Sextugur, kaþólskur og kaus Jimmy Carter

Michael Richard Pence er fæddur 7. júní, 1959, í borginni Columbus í Indiana. Hann varð því sextugur í byrjun sumars. Hann heitir eftir afa sínum, sem flutti til Bandaríkjanna frá Írlandi. Foreldrar Pence eru kaþólskir, og var hann alinn upp í faðmi Demókrata.

Á yngri árum var Pence því í rómversk-kaþólsku kirkjunni, og gekk í Demókrataflokkinn. Hann vann sem sjálfboðaliði fyrir Demókrata í heimasýslunni árið 1976, og kaus Jimmy Carter í forsetakosningunum árið 1980. Í viðtali við IndyStar árið 2012 sagði hann þá John F. Kennedy og Martin Luther King yngri hafa verið kveikjuna að áhuga hans á stjórnmálum.

Í háskóla vatt Pence kvæði sínu í kross. Þá gekk hann í evangelísku kirkjuna, í óþökk móður sinnar, og færðist lengra til hægri á pólitíska ásnum. Pence segist hafa heillast af skynsamri íhaldsstefnu Ronald Reagan. Reagan er einmitt síðasti sitjandi forseti Bandaríkjanna til þess að koma til Íslands, þar sem hann hélt fræga fundi með Gorbatsjov Sovétleiðtoga í Höfða árið 1986.

Útvarpsferill verður að stjórnmálaferli

Sama ár og þeir Reagan og Gorbatsjov hittust í Höfða lauk Pence námi í lögfræði. Tveimur árum síðar stjórnaði hann eigin vikulegum útvarpsþætti í Indiana þar sem hann talaði um stjórnmál. Árið 1992 var hann kominn með daglegan þátt.

epa00707427 U.S. Senator Mike Pence attends a press conference following the meeting with Iraqi President Jalal Talabani and Iraqi Prime Minister Nouri Maliki  in Baghdad on Sunday, 07 May, 2006. The U.S. Congress delegation urged Iraqi politicians to form a government  of national unity.  EPA/ALI ABBAS
 Mynd: EPA
Mike Pence var þingmaður í fulltrúadeild bandaríska þingsins frá 2001..

Hann hóf svo stjórnmálaferil sinn fyrir alvöru þegar hann hætti störfum í útvarpi haustið 1999, og einbeitti sér að því að ná þingsæti í kosningunum ári síðar. Hann náði kjöri og settist í fulltrúadeild Bandaríkjaþings árið 2001. Hann kleif smám saman metorðastigann meðal Repúblikana á þingi og var nafn hans ofarlega á blaði þegar rætt var um hugsanlega frambjóðendur flokksins í forsetakosningunum árin 2008 og 2012.

Vorið 2011 tilkynnti Pence að hann vildi yfirgefa Bandaríkjaþing og sækjast eftir ríkisstjóraembættinu heima í Indiana. Þar vann hann nauman sigur og var settur í embætti ríkisstjóra í ársbyrjun 2013. Þar varð hann enn þekktari – eða alræmdari – af verkum sínum. Hann tók umdeildar ákvarðanir í heilbrigðismálum og setti fram reglugerð sem hinsegin samfélagið sagði brjóta gegn því.

Lög um endurreisn trúfrelsis

Ein umdeildasta lagasetningin sem Pence samþykkti sem ríkisstjóri mætti kalla á íslensku lög um endurreisn trúfrelsis. Lögin samþykkti Pence árið 2015. Samkvæmt þeim gátu einstaklingar og fyrirtæki beitt fyrir sig trúnni sem vörn í dómsmálum.

Nokkrir veitingastaðaeigendur nýttu lögin til þess að neita samkynhneigðum pörum um þjónustu þar sem samkynhneigð stríddi gegn trú veitingamannanna.

E
 Mynd: EPA
Pence var ríkisstjóri í Indiana í Bandaríkjunum 2013-2017.

Samþykkt frumvarpsins vakti mikla athygli í Bandaríkjunum, ekki síst vegna þess að fulltrúar hundruð fjölmiðla voru í Indiana til að fylgja eftir undanúrslitum bandarísku háskóladeildarinnar í körfubolta.

Fjöldi fólks lýsti vonbrigðum sínum með lögin. Íþróttafélög ríkisins og íþróttasambönd í Bandaríkjunum lýstu því yfir að allt yrði gert til þess að bjóða stuðningsmenn gestaliða velkomna til ríkisins.

Pence varði lögin í fjölmiðlum. Hann sagði fólk misskilja þau að þau snerust ekki um mismunun. Útskýring hans hlaut lítinn hljómgrunn og þau voru dregin til baka eftir mikinn þrýsting.

Á móti réttindum hinsegin fólks

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður samtakanna 78, sagði í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 að Pence hafi á öllum sínum stjórnmálaferli unnið gegn hinsegin réttindum.

Pence sagði til að mynda í kosningabaráttu sinni árið 2000 að Bandaríkjaþing ætti að koma í veg fyrir að samkynhneigðir yrðu gerðir að minnihlutahópi og þannig verndaðir gegn mismunun á sama hátt og konur og þjóðernisminnihlutahópar.

Á kosningavefsíðu hans sagði að hann kallaði eftir því að opinbert fé yrði ekki lengur fært stofnunum sem umvefja og hvetja til hegðunar sem eykur líkurnar á útbreiðslu HIV.

Þegar á þingið var komið greiddi Pence atkvæði gegn lögum sem hefðu bannað að mismuna fólki vegna kynhneigðar á vinnustöðum. Þorbjörg sagði í Morgunútvarpinu að komu Pence hingað til lands verði ekki tekið þegjandi og hljóðalaust.

Karen Pence

Þau Mike og Karen Pence, barnaskólakennari frá Kansas, pússuðu sig saman árið 1985. Karen er sögð standa þétt við bak eiginmanns síns í íhaldssömum stefnumálum. Þeirra á meðal er andstaða hans við hjónabönd samkynhneigðra og lögin um trúfrelsi í Indiana.

Mike og Karen Pence eru mjög samrýmd.

Washington Post hefur eftir Ken Blackwell, ráðgjafa Trumps í innanríkismálum við stjórnarskiptin, að hjónin séu sem límd saman. Það sé þó ekki þannig að hann sækist eftir samþykki hennar, heldur virðist hann vilja fá tilfinninguna fyrir því hvað þau lærðu saman og geta ákveðið saman í samræmi við trú sína.

Svo samrýmd eru varaforsetahjónin að Pence greindi frá því árið 2002 að hann snæði aldrei einn með annarri konu en eiginkonu sinni. Eins fari hann ekki á samkomur þar sem áfengi er við hönd án hennar sér við hlið.

Eiginkonan aftur í kennarastarfið

Karen Pence tilkynnti fyrr á þessu ári að hún ætlaði að snúa aftur til kennslu í stað þess að gegna að fullu opinberu embætti varaforsetafrúar. Það var síst til að sefa reiði þeirra sem eru óánægðir með afstöðu Pence í málefnum hinsegin fólks að skólinn sem hún kenndi í hefur strangar inntökureglur.

epaselect epa06012599 US Vice President Mike Pence stands in a doorway at the West Wing of the White House, following his meeting with Prime Minister of Montenegro Dusko Markovic, in Washington, DC, USA, 05 June 2017.  EPA/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA

Hverjum þeim nemanda sem hefur tekið þátt í eða umborið ósiðlegt kynlíf, samkynhneigð eða tvíkynhneigð er meinaður aðgangur að skólanum. Bæði varaforsetafrúin og skólinn voru gagnrýnd í fjölmiðlum vestanhafs fyrir þessa stefnu.

Mike Pence þótti nóg um að varði eiginkonu sína í fjölmiðlum. Þótti honum verulega móðgandi að fylgjast með stóru fréttastofunum ráðast gegn kristinni menntun á þennan hátt. Á móti var Pence fordæmdur fyrir að reyna að verja ákvörðun eiginkonu sinnar.

Loftslagsbreytingar bara bull

Meðal þess sem varaforsetinn ætlar að ræða við íslensk stjórnvöld er málefni norðurslóða. Þá er líklegt að loftslagsmál beri á góma. Pence hefur sagt að hann trúi ekki þeim meirihluta vísindamanna sem telji að loftslagsbreytingar séu að mestu leyti drifnar áfram af manna völdum. Í grein sem hann sendi frá sér árið 2001 sagði hann hnattræna hlýnun vera goðsögn.

New York Times greinir frá því í grein um Pence árið 2016 að hann sé stoltur af því að vera úr takti við nútímann hverju sinni. Taldi hann það til að mynda algjöra vitleysu af löggjafanum að staðfesta hættuna af því að reykja sígarettur. Sagði hann tímabært að menn áttuðu sig á því að reykingar drepi ekki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi