Hver er þessi Kavanaugh?

Mynd: EPA / RÚV

Hver er þessi Kavanaugh?

11.07.2018 - 13:51
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er aldrei lengi úr sviðsljósinu. Ásamt því að vera í Evrópuheimsókn tilkynnti hann val sitt á nýjum hæstaréttardómara fyrr í vikunni, Brett Kavanaugh.

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því hvað þetta þýðir eða hver tilgangur hæstaréttardómara er yfir höfuð. Pétur Marteinn fór yfir það helsta sem vert er að vita varðandi þennan áhugaverða mann og starfið sem hann tekur að öllum líkindum að sér.

Í Hæstarétti Bandaríkjanna sitja níu dómarar. Það er ávallt forsetinn sem stendur fyrir valinu en þeir þurfa að vera samþykktir af efri deild þingsins. Dómararnir sitja til dauðadags en geta sagt af sér vegna aldurs eða af heilsufarsástæðum. Kavanaugh tekur sæti Anthonys Kennedys sem ákvað í síðasta mánuði að setjast í helgan stein.

epaselect epa06876881 US President Donald J. Trump (L) announces Federal appeals court judge Brett Kavanaugh (R) as his nominee to replace retiring Supreme Court Justice Anthony Kennedy, in the East Room of the White House in Washington, DC, USA, 09 July
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Brett Kavanaugh tekur í höndina á Donald Trump

Þrátt fyrir að geta kosið eftir sinni sannfæringu hafa dómararnir yfirleitt kosið eftir línum þess forseta sem að skipaði þá. Repúblikanar kjósa íhaldssamt og Demókratar frjálslynt. 

Fram að þessu voru fimm dómarar skipaðir af Repúblikana og fjórir af Demókrata. Það verður engin breyting þar á en Anthony Kennedy, sá sem lætur nú af störfum, var tilnefndur af Repúblikana. Hann hefur hins vegar af og til kosið á frjálslyndum línum og þá með Demókrötum. Hann kaus til að mynda með hjónabandi samkynhneigðra þegar það var samþykkt árið 2015 og kom í veg fyrir að takmarkanir yrðu settar á fóstureyðingar.

Nú er hins vegar hætta á að frjálslyndari sjónarmið muni eiga erfitt uppdráttar ef tilnefning Trumps gengur í gegn. Flestir telja Kavanaugh vera mikinn íhaldsmann og hann hefur til að mynda verið opinberlega andvígur fóstureyðingum.

Mynd með færslu
Andstæðingar fóstureyðinga og sjálfsákvörðunarréttar kvenna eiga sér dyggan stuðningsmann í Donald Trump, Bandaríkjaforseta. Mynd: AP
Mótmæli gegn fóstureyðingum

Hæstiréttur Bandaríkjanna er frekar pólitískur og tekur afstöðu í mikilvægum málum. Í gegnum tíðina hefur hann til dæmis átt lokaorð varðandi fóstureyðingar, dauðarefsingar, byssueign, aðskilnað kynþátta og hjónaband samkynhneigðra. Það er því augljóst að val Trumps getur haft gífurleg áhrif þegar litið er til framtíðar.

Pétur Marteinn Urbancic Tómasson er vikulegur gestur í Núllinu á miðvikudögum þar sem að hann fer yfir pólitísk mál hverrar stundar. Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Brett Kavanaugh nýr dómari hæstaréttar

Norður Ameríka

Kennedy hættir sem Hæstaréttardómari