Hver endar á að borga?

Mynd: RÚV / RÚV

Hver endar á að borga?

25.11.2015 - 14:23

Höfundar

Framleiðsla á vörum kostar oftar en ekki miklu meira en verð hennar segir til um. Stefán Gíslason flutti pistil í Samfélaginu.

Innlimun úthrifa

 

Verð matvæla var gert að umtalsefni hér í Samfélaginu í síðustu viku. Meginniðurstaðan úr þeirri umræðu var að matvælaverð væri yfirleitt of lágt vegna þess að inn í verðið vantaði hluta af þeim kostnaði sem framleiðsla matvælanna hefur í för með sér. Hinn raunverulegi kostnaður lenti sem sagt iðulega á öðrum en þeim sem kaupa matinn, til dæmis á fólki í fjarlægum löndum, á komandi kynslóðum og á Móður Jörð.

Það sem sagt var um lágt matvælaverð í síðustu viku á í raun líka við um stóran hluta af öllum þeim varningi sem þykir sjálfsagður hluti af daglegri neyslu okkar Vesturlandabúa. Dótið sem við kaupum er oftast alveg nógu dýrt frá sjónarhóli þess sem sér um heimilisbókhaldið, en framleiðsla vörunnar kostar samt oftar en ekki miklu meira en það sem fram kemur í endanlegu verði. Sömuleiðis eru ýmsar vörur þess eðlis að notkun þeirra veldur samfélaginu umtalsverðum kostnaði, jafnvel löngu eftir að notkuninni lýkur. Tóbaksvörur eru ágætt dæmi um þetta, en eins og flestir vita kostar tóbaksnotkun heilbrigðiskerfið gríðarlegar fjárhæðir. Í því sambandi er eðlilegt að menn velti fyrir sér hver eigi að borga brúsann. Getum við ætlast til að reykingamenn borgi sjúkrahússreikningana sjálfir en fái enga þjónustu ella? Eða eiga reyklausar kynslóðir barnanna okkar að samþykkja þegjandi og hljóðalaust að borga þetta þegar þar að kemur? Eða hefði verið réttlátast að reikna þennan kostnað eftir bestu getu og bæta honum öllum ofan á verð tóbaksins þegar það var selt?

 

Tóbak er á raunverði ólíkt öðrum vörum

Ef við hefðum borið gæfu til að koma öllum kostnaði samfélagsins vegna tóbaksnotkunar inn í verð vörunnar strax í upphafi hefði tvennt unnist. Annars vegar hefði þar myndast dágóður sjóður sem myndi duga heilbrigðiskerfinu til að kljást við afleiðingar tóbaksnotkunarinnar. Reykingafólkið og allir hinir tóbaksnotendurnir myndu þá fá jafngóða þjónustu í heilbrigðiskerfinu og hver annar án þess að reyklausir samtíðarmenn og afkomendur væru neyddir til að taka kostnaðinn á sig. Hins vegar hefðu tóbaksnotendurnir átt auðveldara með að taka upplýsta ákvörðun í búðinni þar sem þeir keyptu tóbakið ef raunkostnaður hefði endurspeglast í verðinu. Haustið 2008 áætlaði Læknafélag Íslands að sígarettupakkinn þyrfti að kosta 3.000 kr. til að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af skaðsemi tóbaks fyrir íslenska ríkið. Um þetta leyti kostaði pakkinn eitthvað um 650 krónur, þannig að líklega hefðu einhverjir reykingamenn hugsað sig tvisvar um ef þeir hefðu þurft að greiða raunverð. Það kann vel að vera að þessir útreikningar hafi verið uppfærðir síðar, en hér skiptir hlutfallið meira máli en nákvæm krónutala. Þess ber reyndar að geta að tóbak er þrátt fyrir allt ein af fáum vörum þar sem hluta af samfélagskostnaðinum hefur meðvitað verið bætt inn í söluverðið.

 Erfitt reiknisdæmi

Óbeinn kostnaður umhverfis og samfélags umfram það verð sem neytandinn greiðir fyrir vöru við innkaup er það sem hefur verið kallað úthrif eða externalities. Fullkomin innlimun þessara úthrifa í verð vöru og þjónustu myndi sennilega gera umhverfinu og samfélaginu meira gagn en flestar aðrar aðgerðir sem tiltækar eru í verkfærakistum stjórnmálamanna samtímans. Hér erum við sem sagt að tala um fyrirbærið innlimun úthrifa eða internalisation of externalities, svo við bregðum nú aftur fyrir okkur tungumáli sem er meira notað í hagfræðilegum rökræðum en íslenskan.

Innlimun úthrifa er alls ekki auðvelt viðfangsefni, hvort sem í hlut eiga matvæli sem hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag, tóbak sem hækkar kostnað heilbrigðiskerfisins mjög verulega, olía sem stuðlar að loftslagsbreytingum þegar henni er brennt eða ódýr stuttermabolur sem hefur skilið eftir sig slóð eymdar og eyðileggingar í Bangladess eða einhvers staðar annars staðar. Því er gjarnan haldið fram að verðlag ráðist af markaðsaðstæðum, en kjarni vandans er sá að í svona tilvikum ræður hinn frjálsi markaður ekki við verkefnið án utanaðkomandi aðstoðar, sem væntanlega þarf að koma frá stjórnvöldum. Þetta er sem sagt dæmi um markaðsbrest. Ef stjórnvöld vita að úthrif eru til staðar hljóta þau að verða að bregðast við og reyna að innlima þau til að leiðrétta skekkjuna á markaðnum. Þá komum við að næsta vandamáli. Það er nefnilega hreint ekki einfalt þegar til kastanna kemur að reikna úthrifin í krónum og aurum. Það að menn viti ekki nákvæmlega hver úthrifin eru afsakar samt ekki að menn reyni ekki að innlima þau. Þar kemur Varúðarreglan til skjalanna, en þessi grundvallarregla í umhverfisrétti nútímans segir í stuttu máli og í einfaldaðri mynd að þó að menn þekki ekki úthrifin megi ekki nota það sem réttlætingu fyrir því að aðhafast ekkert. Óvissan megi sem sagt ekki verða til þess að menn fresti varnaraðgerðum. Það er með öðrum nóg að vita að úthrifin séu ekki engin til þess að ljóst sé að bregðast þurfi við.

Íslensk stjórnvöld hafa í nokkrum tilvikum brugðist við til að reyna að innlima úthrif í verð vöru, a.m.k. að einhverjum hluta. Sérstök skattlagning tóbaks og áfengis er dæmi um þetta og sama má segja um sykurskattinn, sem reyndar varð býsna skammlífur. Óhófleg sykurneysla er orðin gríðarlegt samfélagsmein um allan heim og kostnaður heilbrigðiskerfisins hennar vegna er miklu hærri en flestir gera sér grein fyrir. Í þessu sambandi öllu skiptir auðvitað líka máli hvernig menn nýta þá fjármuni sem skila sér inn í kerfið með þessum hætti. Skattlagningin hefur sem fyrr segir tvíþættan tilgang, annars vegar að stýra neyslunni frá þessum skaðlega varningi og hins vegar að fjármagna tjónið sem neyslan veldur. Það liggur því auðvitað beinast við að eyrnamerkja þessa peninga og nota þá alla í þau verk sem um ræðir. Gagnsæi í þeim efnum er auk þess fræðandi og stuðlar að betri kostnaðarvitund.

Taka stjórnvöld ábyrgð?

Hvernig sem á þetta er litið hlýtur það að vera hlutverk stjórnvalda að hækka verð vöru sem hefur mikil úthrif í för með sér. Önnur leið að sama markmiði getur verið að beita jákvæðri mismunun, þ.e.a.s. að lækka verð annarrar vöru sem hefur lítil úthrif, já eða jafnvel jákvæð úthrif, því að slík úthrif fyrirfinnast vissulega líka. Dæmi um þetta gæti verið að lækka virðisaukaskatt á vörur með viðurkennd umhverfismerki, rétt eins og ákveðið var með einróma samþykki Alþingis á þingsályktun um eflingu græns hagkerfis í mars 2012. Af einhverjum ástæðum hefur þetta þó aldrei komist í framkvæmd.

Stundum eru stjórnvöld verri en engin þegar kemur að þessari skyldu þeirra til að innlima úthrif og leiðrétta þann markaðsbrest sem hér er til umfjöllunar. Dæmi um þetta eru styrkir og niðurgreiðslur stjórnvalda um allan heim vegna framleiðslu á kolum, olíu og gasi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að þessir styrkir nemi um 10 milljónum dollara á hverri einustu mínútu allt þetta ár, eða samtals 5.300 milljörðum dollara á árinu. Þetta samsvarar 689.000 milljörðum íslenskra króna, eða um þúsundföldum fjárlögum íslenska ríkisins! Heildartalan er hærri en öll útgjöld þjóða heims til heilbrigðismála, svo annað dæmi sé tekið. Þarna eru ríkin sem sagt að taka fé frá samfélögum heimsins til að stuðla að því að þessi sömu samfélög verði fyrir enn meiri skaða. Og svo flykkjast leiðtogar þjóða heims til Parísar eftir nokkra daga, alveg í öngum sínum yfir loftslagsbreytingum á sama tíma og þeir halda áfram að dæla 10 milljónum dollara á mínútu í að auka þær sem mest.