Hver ber ábyrgð á umhverfisslysum?

Mynd: RÚV / RÚV

Hver ber ábyrgð á umhverfisslysum?

15.02.2016 - 16:15

Höfundar

Stefán Gíslason fjallar um umhverfisslys í Brasilíu í umhverfispistli landsins.

Náttúra og fólk verður fyrir barðinu á mengun

Í byrjun nóvember brustu tvær stíflur námufyrirtækisins Samarco í Marianahéraði i Minas Gerais ríki í suðaustanverðri Brasilíu með þeim afleiðingum að um 60 milljónir rúmmetra af úrgangi frá járnvinnslu flæddu yfir nærliggjandi byggðir, út í „Sykurána“ Rio Doce og alla leið út í Atlantshafið. Eftir því sem næst verður komist dóu 17 manns þegar þeir urðu fyrir flóðinu og tveggja er enn saknað. Fleiri hundruð manns misstu heimili sín og margfalt fleiri misstu lífsviðurværið vegna þess að landið sem þeir höfðu byggt afkomu sína á og fiskimiðin sem höfðu séð fjölskyldum þeirra fyrir nauðþurftum urðu ónothæf eins og hendi væri veifað. Þar sem áður voru blómlegar byggðir og fjölskrúðugt dýralíf eru nú hnípin samfélög án lífsviðurværis, mitt í umhverfi sem er mengað af þungmálmum og öðrum hættulegum efnum – og verður fyrirsjáanlega til lítils gagns eða gleði næstu áratugi.

Flóð brestur á

Sú atburðarás sem hér er lýst hófst kl. hálffjögur síðdegis fimmtudaginn 5. nóvember síðastliðinn, en þá varð ljóst að sprunga væri komin í stífluna. Tilraunir til að létta á álaginu báru ekki árangur og tæpri klukkustund síðar brast stíflan og eiturleðjan sem hún átti að halda í skefjum fossaði niður Santarémdalinn og þurrkaði m.a. út þorpið Bento Rodrigues sem stóð 2,5 km neðan við stífluna. Flestir íbúarnir náðu að forða sér upp í nærliggjandi hlíðar en a.m.k. 17 dóu í flóðinu. Flóðið hélt svo áfram sem leið lá niður nærliggjandi dali og ár og út í ána Ríó Doce. Sautján dögum eftir að stíflan brast var flóðið komið alla leið niður á strönd og út í Atlantshafið, eitthvað um 500 km langa leið frá stíflunni.

Enn er eflaust langt þangað til menn gera sér grein fyrir því hversu mikið tjón hefur orðið á lífríki og hagkerfi þess svæðis í Brasilíu sem flóðið fór um. Fjöldi dauðsfalla liggur nokkurn veginn fyrir og eins virðist ljóst að allt líf á nokkur hundruð kílómetra löngu vatnasvæði þurrkaðist meira og minna út. Fiskimið í ám og í sjónum út frá ósum Ríó Doce verða ekki nothæf næstu árin, neysluvatn er víða mengað, strandsvæði laða ekki til sín neina ferðamenn og svo mætti lengi telja. En áhrifin eru hvorki staðbundin né þekkt til hlítar. Þannig er jafnvel talið að það muni taka lífríkið í Suður-Atlantshafinu aldir að ná sér eftir þetta áfall.

Spurning um ábyrgð

Íslendingar eru ekkert óvanir náttúruhamförum og fljótt á litið geta menn kannski litið á flóðið í Brasilíu sem hverjar aðrar náttúruhamfarir. Þar er þó sá stóri munur á að flóðið í Ríó Doce var af mannavöldum. Stórfyrirtækinu Samarco hafði sem sagt leyfst að safna gríðarlegu magni af fljótandi námuúrgangi í lón og forsvarsmenn fyrirtækisins gripu jafnvel ekki til fyrirbyggjandi aðgerða þó að þeir hefðu fengið ábendingar um það mörgum mánuðum fyrir slysið að ástandið á stíflunum sem áttu að halda leðjunni í skefjum væri orðið mjög bágborið og beinlínis hættulegt. Engar viðvaranir voru heldur gefnar út þegar stíflurnar byrjuðu að leka. Ábyrgð forsvarsmannanna er mikil og einmitt í dag eiga lögregluyfirvöld í Brasilíu að ljúka rannsókn sinni á því hvort farið skuli með málið sem morð af gáleysi eða jafnvel bara sem hvert annað morð.

Brasilía er langt í burtu, en samt hljóta þessir atburðir að gefa okkur sem búum hérna norðar við Atlantshafið tilefni til að velta því fyrir okkur á hvaða leið við séum. Hvers vegna leyfa t.d. stjórnvöld, í hvaða landi sem þau annars ríkja, fyrirtækjum að setja á stofn starfsemi sem getur valdið svo miklu tjóni að það geti haft áhrif á afkomu samfélaga og vistkerfa öldum saman? Reyndar er rétt að geta þess í þessu sambandi að stjórnvöld í Brasilíu hafa stöðvað starfsemi Samarco og hyggjast krefja fyrirtækið og móðurfélög þess, námufélögin Vale og BHP Billiton, um skaðabætur upp á 7 milljarða dollara, eða sem samsvarar hátt í 900 milljörðum íslenskra króna. Fljótt á litið virðist manni reyndar ólíklegt að eingreiðsla upp á þó þetta háa upphæð fari langt með að bæta tjón sem getur verið að koma fram næstu áratugi og jafnvel aldir. Hér erum við ekki bara að tala um bætur fyrir mannslíf, fasteignir og tekjutap fiskveiðimanna og ferðaþjónustufyrirtækja. Málið snýst líka um stórt inngrip í vistkerfi sem veitir mönnum margvíslega þjónustu sem ekki er metin til fjár nema að litlu leyti. Og eins gæti maður efast um að félögin séu borgunarmenn fyrir þessum milljörðum, en kannski eru það ástæðulausar áhyggjur. Þessi fyrirtæki eru jú á meðal stærstu námufyrirtækja í heimi.

Annað sem hollt er, en ekki að sama skapi þægilegt, að velta fyrir sér í tilefni af þessum ósköpum í Brasilíu er hvað þurfi eiginlega til þess að stjórnvöld og almenningur víða um heim vakni í alvöru til vitundar um það á hvaða leið við erum. Þetta er ekki fyrsta slysið af þessu tagi, ef hægt er að tala um slys í þessu sambandi. Þeir sem komnir eru á miðjan aldur muna eflaust eftir kjarnorkuslysinu í Chernobyl í Úkraínu 1986, Exxon Valdez slysinu við strendur Alaska 1989, Deepwater Horizon olíuslysinu á Mexíkóflóa 2010 og Fukushimaslysinu í Japan 2011, svo nefnd séu fáein dæmi af mörgum. Öll þessi slys hafa dregið dilk á eftir sér og áhrifa þeirra mun gæta áratugum saman. Og við verðum alltaf jafn hissa þegar eitthvað svona gerist. Líklega höldum við að hvert slys sé það síðasta af þessum stóru óhöppum. En þannig verður það ekki. Ef við höldum okkur bara við námuiðnaðinn í Brasilíu og nánar tiltekið bara við ríkið Minas Gerais, þá eru í þessu eina ríki rúmlega 750 stíflur í líkingu við þá sem brast 5. nóvember og af þessum 750 stíflum eru 40 taldar vera í ófullnægjandi ásigkomulagi. Slysin munu halda áfram að verða bæði þar og á öðrum svæðum og öðrum sviðum.

Trygging gegn tjóni?

Nú er eðlilegt að spurt sé hvað sé hægt að gera til að fyrirbyggja ósköp af þessu tagi, þar sem einkafyrirtæki valda almenningi, lífríkinu og komandi kynslóðum svo miklu tjóni að allir þeir milljarðar dollara sem hugsanlega er hægt að kreista út úr fyrirtækjunum dugi hvergi nærri til að bæta tjónið. Við þessari spurningu er ekki til neitt einfalt svar, en kannski er þó vert að velta fyrir sér þeim möguleika að engu fyrirtæki ætti að leyfast að ráðast í neina þá starfsemi sem valdið getur áhættu fyrir samfélög nær eða fjær, nema að fyrirtækin geti framvísað staðfestingu frá tryggingarfélagi á því að það ábyrgist allt það tjón sem starfsemin getur haft í för með sér, sem yrði þá nánar skilgreint í hverju einstöku tilviki. Þannig þyrftu t.d. öll fyrirtæki sem byggja starfsemi sína að einhverju leyti á stíflum sem halda vatni eða einhverjum öðrum vökva í skefjum að kaupa tryggingu sem bætir þann skaða sem verða myndi ef stíflan brysti, bæði að teknu tilliti til magns vökvans og efnasamsetningar. Hefði Samarco t.d. verið með slíka tryggingu þyrftu samfélög í Marínahéraði, í ríkinu Minas Gerais, í landinu Brasilíu og í öðrum löndum í kringum sunnanvert Atlantshafið ekki að hafa neinar stórar áhyggjur, því að tryggingarfélagið myndi náttúrulega bæta allt það tjón sem af þessu hlýst, jafnvel þegar 100 ár eru liðin frá slysinu.

Ef til vill finnst mörgum þessi hugmynd um tryggingarfélög og ábyrgðartryggingar frekar langsótt eða jafnvel alveg fráleit, því að auðvitað myndi ekkert tryggingarfélag treysta sér til að selja tryggingar vegna hugsanlegra tjóna af þessari stærðargráðu, eða þá að ekkert fyrirtæki myndi vera tilbúið að borga iðgjaldið sem tryggingarfélagið myndi setja upp. En þá á samfélagið einfalt svar, alveg eins og Hérastubbur bakari í Dýrunum í Hálsaskógi: „Ef þú borgar ekki, þá færðu heldur ekki kökurnar“. Það getur einfaldlega ekki verið ásættanlegt að einkafyrirtæki hirði gróðann en almenningur í nútíð og framtíð taki ábyrgð á afleiðingunum. Þá erum við að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið.