Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hver á skilið ofurlaun?

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons

Hver á skilið ofurlaun?

08.04.2019 - 13:40

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson veltir fyrir sér réttlætinu í misskiptingu auðs og eigna í samfélaginu. „Tengslin milli mannkosta og stöðu í lífinu eru afar veik, og í besta falli óbein.“

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Sjáum fyrir okkur láglaunamanneskju sem vinnur við að þrífa hótelherbergi í Reykjavík. Á hann eða hún skilið sín bágu kjör? Færum okkur um set og ímyndum okkur forstjóra ríkisstofnunar, til dæmis í bankageiranum. Á viðkomandi skilið að fá margar milljónir í mánaðarlaun? Við getum líka bætt því við að gamni að báðar þessar manneskjur séu með sömu menntunina. Segjum að bæði hótelstarfsmaðurinn og ríkisforstjórinn séu menntaðir lögfræðingar, sá fyrrnefndi frá einhverjum háskóla í Austur-Evrópu en sá síðarnefndi frá Háskólanum í Reykjavík. Breytir það einhverju? Erum við einhverju nær um það hvað þetta fólk á skilið eða hvað ekki? Þurfum við kannski að vita miklu meira um þetta fólk til að geta dregið einhverjar ályktanir um hvað það á skilið og hvað ekki? Eða er það kannski bara tóm vitleysa yfir höfuð að halda að heimurinn virki þannig að fólk fái það sem það á skilið?

Heppni eða hæfileikar

Ef eitthvað er að marka nýlega grein sem birtist í heimspekitímaritinu Aenon þá er svarið já, það er svo sannarlega algjör vitleysa. Og ekki bara vitleysa, heldur mjög skaðleg vitleysa. Eða eins og segir í fyrirsögn greinarinnar: „Trúin á verðleikasamfélagið er ekki einungis ranghugmynd, heldur er hún vond fyrir þig“. Þar fer höfundurinn yfir það hvernig hugmyndin um verðleikasamfélagið er í miklu uppáhaldi meðal stjórnmálafólks um víða veröld og jafnframt að rannsóknir sýni að þorri almennings, að minnsta kosti í Bandaríkjunum og Bretlandi, telji ekki aðeins að samfélagið eigi að útbýta lífsgæðum til fólks á grundvelli verðleika, heldur sé það nákvæmlega þannig - að greind og hæfileikar hafi mun meiri áhrif á lífsgæði fólks heldur en til dæmis heppni eða hlunnindi sem fást gefins í arf. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Að fæðast með íslenskt vegabréf er blessun sem opnar margar dyr

Genalottóið

Þetta er vitaskuld rangt enda eru meira að segja verðleikar fólks einir og sér háðir heppni og ytri skilyrðum sem hafa ekkert með sanngirni, vinnusemi eða greind að gera. Það hvort það sé töggur í tiltekinni manneskju eða hvort hún býr yfir mikilli þrautseigju eða greind er til dæmis háð þeim genum sem hún hlýtur frá foreldrum sínum sem og auðvitað uppvexti og þeim aðstæðum sem eru eða eru ekki til staðar hverju sinni til þess að hæfileikar fólks fái að blómstra. Ekkert af þessu hefur nokkuð með mannkosti að gera. Með þessu er hvorki verið að afneita hæfileikum eða vinnusemi fólks sem nýtur velgengni, en það er hins vegar svo að tengslin milli mannkosta og stöðu í lífinu eru afar veik, og í besta falli óbein. Stundum er sagt í niðurlægingarskyni að það sé engin eftirspurn erlendis eftir öllu þessu íslenska bankafólki á ofurlaunum, en það eitt og sér er enginn sérstakur dómur yfir hæfileikum þessa fólks. Það er einfaldlega til feykinóg af fólki í heiminum sem hefur allt til brunns að bera í þessi störf, hvort sem það vinnur þau eða ekki. 

Að fæðast með íslenskt vegabréf

Málið er, að þetta er allt saman tiltölulega augljóst. Við viljum hins vegar miklu frekar trúa því að heimurinn sé í raun og veru sanngjarn. Sálfræðirannsóknir hafa ítrekað leitt þetta í ljós. Auðvitað viljum við öll trúa því að barn sem elst upp við neyðarkjör og volæði í einu af fátækustu ríkjum heims geti risið til æðstu metorða í krafti hæfileika sinna og metnaðar. En það er vitaskuld ekki svo. Fjarri því. Að fæðast með íslenskt vegabréf er blessun sem opnar margar dyr, tryggir margvísleg réttindi og tækifæri, en það hefur að sjálfsögðu ekkert með verðleika að gera. Það er bara heppni.

Önnur ástæða fyrir því af hverju hugmyndinni um mikilvægi verðleika er haldið svo á lofti, er að hún er mjög hentug réttlæting fyrir „status kvó.“ Hún færir fram útskýringar á stöðu fólks í samfélaginu. Ef verðleikar leiða óhjákvæmilega af sér velgengni, þá er hver sigur vitaskuld ekkert annað en spegilmynd dyggða, og sömuleiðis er þá fátækt og umkomuleysi einfaldlega eitthvað sem fólk kallar yfir sig. Þessi hugsun gerir ríku og valdamiklu fólki kleift að telja sér trú um að það sé snillingar sem eigi hlunnindi sín skilið, og jafnframt að verst setta fólkið í þjóðfélaginu geti fyrst og fremst sjálfu sér um kennt. Eins og segir í greininni, þá er þetta hugmyndafræði sem breytir eignum í aðdáun og misskiptingu auðs í tákn um persónulega yfirburði. 

Niðurstaða falskrar hæfileikakeppni

Rannsóknir benda jafnframt til þess að trúin á hjónaband verðleika og velgengni geri fólk eigingjarnara og geri það að verkum að það líti síður í eigin barm og eigi auðveldara með að mismuna öðru fólki. Ein slík rannsókn felst í því að láta manneskju A fá andvirði 10.000 króna og láta hana stinga upp á skiptingu fjárhæðarinnar með manneskju B. Ef manneskja B hafnar hins vegar skiptingunni sem stungið er upp á, fær hvorug þeirra neitt. Niðurstöðurnar sýna að í þessum handahófskennda leik er yfirleitt stungið upp á skiptingu þar sem manneskja B fær í kringum 4-5.000 í sinn hlut. Þetta gerist hins vegar ekki í örlítið breyttri útgáfu af leiknum, þar sem þátttakendur eru látnir keppa í falskri hæfileikakeppni áður en skiptingin fer fram. Þátttakendur sem voru ranglega látnir trúa því að þeir hefðu unnið í slíkri keppni, héldu miklu stærri hluta fjárhæðarinnar eftir handa sjálfum sér en annars. Þeir töldu sig með öðrum orðum eiga skilið að fá meira í eigin vasa en aðrir. 

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Fólk sem á minna er líklegra til að deila með sér.

Friðþæging ofurmennisins

Á hinn bóginn sýna rannsóknir á þakklæti sömuleiðis að fólk, sem telur velgengni sína vera afrakstur heppni, sé mun örlátari en fólk sem telur árangur sinn vera afrakstur mannkosta. Maður hefur jú oft heyrt að yfirleitt séu það þau sem eiga minnst sem gefa mest þjórfé og ef það er einhver fótur fyrir því, þá gæti það verið vegna þess að hin ríku hneigjast til þess að líta niður á fátæklingana sem afgreiða þau, eða þrífa hótelherbergin þeirra, og að þeirra eigið ríkidæmi endurspegli fyrst og fremst þeirra einstöku skaphöfn og hæfileika.

Þess vegna er þetta auðvitað ekki vinsæl skoðun, að gefa í skyn að persónuleg velgengni sé afrakstur heppni. Að viðurkenna áhrif tilviljana og heppni virðist grafa undan hugmyndinni um verðleika. Og að einhverju leyti hvílir þessi hugsun undir fyrirbærum eins og kjaraviðræðum atvinnulífs og verkalýðs. Þær snúast ekki einungis um laun, sjálftöku, samfélagslega misskiptingu og kerfislæga ósanngirni, heldur hversu mikla innistæðu fólk hefur fyrir sögunum sem það segir sjálfu sér um líf sitt, hversu mikið fólk getur leyft sér að dást að eigin geðslagi. Þær snúast um ranghugmyndirnar sem fólk reisir spegilmynd sína á. Að standa vörð um eigin sjálfteknu hlunnindi, að standa vörð um lífsgæði sem eru í engu samræmi við veruleikann sem heldur þeim uppi, er um leið varðstaða um eigin lífslygi. Það að greiða sjálfum sér ofurlaun, er ein leið til þess að segja sjálfum sér þá lygasögu, að maður sér ofurmenni. Og öll ofurmenni þurfa smælingja sem krýpur fyrir þeim.

 

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Barneignir og umhverfismál

Bókmenntir

Um víðlendur mannlegs eðlis, á fund morðingja

Pistlar

Starað í skuggsjá listarinnar

Pistlar

Fastað í Borgartúni