Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvassahraun vænsti kosturinn

24.05.2019 - 08:55
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Vænsti kosturinn fyrir borgarflugvöll Reykjavíkur er í Hvassahrauni að mati borgaryfirvalda í Reykjavík. Hvassahraun er ekki eini raunhæfi kosturinn en sá besti, að mati Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Morgunblaðið segir frá þessu í dag. Þar er haft eftir Degi að athuganir hafi bent til þess þess að Hvassahraun komi best út í samanburði við aðra valkosti. Dagur og Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi eru á umhverfisráðstefnu borga í Osló í Noregi.

Hjálmar segir í samtali við Morgunblaðið að hann telji líklegt að flugvöllurinn í Vatnsmýri verði farinn um eða upp úr 2030. Sé litið til Oslóar hafi þróunin orðið sú að gömul, plássfrek og vannýtt iðnaðarsvæði hafi verið endurnýtt til þess að skapa fleiri störf.

„Hvassahraunið virðist koma miklu sterkar út en aðrir valkostir, á borð við Löngusker og Hólmsheiði. Margir hafa nefnt Álftanesið en af umhverfisástæðum og út af vissum atriðum held ég að það verði hins vegar aldrei,“ er haft eftir Hjálmari í Morgunblaðinu.

Borgarstjóri segir hóp á vegum samgönguráðherra fjalla um flugvallamálin í borginni. Það sé brýnt öryggismál að bæta úr varaflugvallarmálum á Íslandi sem hann segir í algjörum ólestri.

Rögnunefndin svokallaða sem skilaði niðurstöðum sínum á úttekt á framtíðarflugvallarmálum árið 2015 valdi Hvassahraun sem vænlegasta kostinn. Nefndin var stýrihópur ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group, sem hafði það að markmiði að kanna og meta nokkra staði fyrir nýjan innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu.

Í nefndinni sátu Ragna Árnadóttir formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrir hönd ríkisins, Matthías Sveinbjörnsson fyrir hönd Icelandair og Dagur B. Eggertsson fyrir Reykjavíkurborg.