Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Hvar klikkaði ég að verða svona gamall?“

Mynd: rúv / rúv
Ertu orðinn svona gamall? Spyr fólk og Ásgeir Hólm, gantast með að honum líði stundum eins og hann hafi gert eitthvað af sér, tekið ranga beygju einhvers staðar. Hann er 78 og hætti aldrei að vinna, sneiddi í raun hjá þeim tímamótum sem fylgja starfslokum. Hann vinnur hjá Húsasmiðjunni en þar hafa stjórnendur ráðið og haldið í reynslumikið fólk. Spegillinn ræðir á næstunni við nokkra eldri borgara um lífið eftir 67 ára afmælið..

Ásgeir Hólm er 78 ára gamall og vinnur hjá Húsasmiðjunni í Hafnarfirði við að selja málningu, er búinn að vera í málningardeildinni í tuttugu ár. „Ég vinn þrjá daga í víku, man ekki hver prósentan er, svo hleyp ég inn í ef það eru veikindi og svoleiðis, þá er hringt í mig og maður bara mætir og bjargar málunum.“ 

Kominn á enn-aldurinn

Hann segist vera kominn á enn-aldurinn. „Menn segja stundum, ertu enn að vinna? Það liggur við að menn segi ertu enn að fara á fætur á morgnana? Ertu enn að anda og svona? Ertu bara enn lifandi, nánast,“ útskýrir hann og hlær.   Hann tekur þessar enn-spurningar ekki nærri sér. „Maður á ekki að vera að ergja sig á þessu en það er svolítið gaman að því þegar menn segja: já þú ert svona gamall! Þá hefur maður á tilfinningunni, bíddu, hvað gerði ég af mér? Hvar klikkaði ég að verða svona gamall? Ég hlýt að hafa tekið ranga beygju einhvers staðar? Ég segi við þetta fólk: Þú náttúrulega gerir ekki ráð fyrir því að verða gamall.“ Finnst honum vinnufélagar, sem margir hafa ekki lifað nema þriðjung eða fjórðung af hans ævi skilgreina hann út frá aldrinum? 
„Það er voðalega misjafnt, oft er þetta bara sagt í gríni. Ef maður tekur inn á sig alla svona hluti er maður bara kominn í þunglyndi.“

Mynd með færslu
 Mynd: max pixel
Viðskiptavinir biðja oft um ráðleggingar.

Skiptir öllu að hafa gaman að starfinu

Þegar Ásgeir varð 67 ára fór hann og ræddi við yfirmann sinn. „Ég hafði svolítið gaman að svarinu sem ég fékk. Ég sagði við hann, nú er ég orðinn 67 ára, gildir þá að ég hætti bara að vinna? Þá glotti hann og sagði, það gildir kannski að einhverju leyti en það gildir nú ekki um þig. Ég fór út og vissi nú ekki hvernig ég ætti að taka þessu. En ég hef aldrei fundið fyrir öðru en að mitt starf hafi bara verið metið að verðleikum. Ég er frekar hraustur, ég hef gaman að starfinu og metnað fyrir því sem ég er að gera, mér finnst það númer eitt, tvö og þrjú að maður hafi gaman að því sem maður er að gera, finni einhvern tilgang með því, þá líður manni vel. Að maður sé ekki með kvíðahnút í maganum á mánudagsmorgni yfir því að það sé heil vinnuvika framundan, þetta er bara partur af manns lífi. Manni líður vel, innan um góðan félagsskap og svona gegnumsneytt eru viðskiptavinirnir yfirleitt mjög jákvæðir og alveg hending ef maður hittir á fólk sem er leiðinlegt, þá reynir maður bara að leiða það hjá sér.“ 

Sloppið við aldursfordóma

Hann segist aldrei hafa orðið fyrir aldursfordómum eða niðrandi athugasemdum. „Maður fær reyndar stundum spurninguna, þú veist nú allt er það ekki? Þá er ég með svona standard svar: Já, ég veit nú allt ég bara man ekkert. Þá er ísinn brotinn og ekki röflað meira um það.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Hefði kannski hætt ef konan hefði lifað

Velti hann því aldrei alvarlega fyrir sér að hætta?  „Nei, raunverulega ekki, ekki á þeim tímapunkti. Reyndar breytist kannski, eins og gengur og gerist í lífinu, að konan mín deyr fyrir fimm árum síðan og þá náttúrulega breytist allt líf manns, eins og einn góður kunningi minn sagði, maður þarf að byrja að lifa upp á nýtt. Kannski hefði hún lifað og þá hefði maður kannski hætt fyrr, ég segi það ekki en eins og er hentar þetta mér mjög vel þannig að ég hef ekki pælt í því.“

Ásgeir segir í raun fátt hafa breyst hjá sér við að verða 67 ára. „Ekki þannig, maður er náttúrulega orðinn einn og þarf að elda matinn sjálfur og þvo þvottinn, svona litlir hlutir sem eru kannski stórir hlutir í samhenginu sko.“

Hvað þýðir það að slappa af? 

Þessi krísa sem sumir upplifa þegar þeir hætta að vinna, þurfa að finna sína fjöl, búa til nýtt dagsskipulag, Ásgeir hefur kannski ekki gengið í gengum hana. „Nei, ég bý nú í gömlu, virðulegu húsi í Hafnarfirði og ég hef alltaf nóg að gera, eins og strákurinn minn sagði einhvern tímann. Er pabbi þinn alltaf eitthvað að vesenast, já pabbi er alltaf eitthvað að vesenast og ef hann hefur ekki eitthvað að vesenast þá finnur hann eitthvað til að vesenast í. Hvernig skilgreinirðu það að slappa af? Er það að liggja uppi í rúmi og glápa úti í loftið eða gera eitthvað í höndunum? Ég slappa mest af þegar ég er að gera eitthvað.

Mynd með færslu
 Mynd:

Ekki skoðað réttindin hjá Tryggingastofnun

Ásgeir segir það að halda áfram að vinna koma sér vel fjárhagslega. Hvernig væri staðan ef hann væri ekki með atvinnutekjur? „Ég bara veit það ekki, ég er í VR og fæ lífeyristekjur þaðan, einhverjar rúmar 200 þúsund krónur fyrir skatt. Ég hef bara ekki kunnáttu, eða pælt í því hvað ég fengi út úr tryggingum á móti þessu. Ég hef aldrei farið inn í þetta tryggingakerfi, geri ekki ráð fyrir því að ég fengi krónu út úr því hvort sem er, með mínar tekjur.“

„Það fæðist enginn inn í þetta starf“

Ef fólk vill halda áfram að vinna, hvað er til ráða? Snýst þetta um að vera heppinn með atvinnurekanda? „Ég held það hljóti að skipta miklu máli að vera hjá atvinnurekanda sem hefur skilning á því hvað þú hefur fram að færa í reynslu, ég er ekkert að setja út á ungt fólk, eins og ég hef stundum sagt, menn koma til mín og segja, heyrðu, þessi piltur þarna eða þessi stúlka seldi mér þetta og þetta, hún er bara að gera tóma vitleysu og kann ekkert. Þá segi ég við þetta fólk, bíddu, þá er það mér að kenna, þá er ég ekki búinn að kenna þeim nóg. Það fæðist enginn inn í þetta og það má ekki rakka niður ungt fólk. Það hefur ekki reynslu og það þarf að læra, það má ekki bara segja, þetta er ungur maður þá veit hann ekkert, það er alls ekki rétt.“

Þannig að viðskiptavinir sem kannski eru haldnir fordómum gagnvart ungu fólki þeir leita til þín? 

„Í svona starfi, þar sem fólk er að koma með svona do it yourself verkefni er fólk náttúrulega að leita eftir ákveðinni reynslu og það hefur oft vantrú á því, ef það fer inn í búð og spyr 17 ára ungling, hvernig á ég að gera þetta og hitt? Það er ekki eðlilegt að 17 ára unglingur viti þetta, ekki nema einhver hafi kennt honum það.“ 

Fólk þurfi að hafa raunverulegt val

Ásgeiri finnst mikilvægt að fólk hafi val, ráði því hvort það hættir að vinna eða ekki. „Mér finnst það en svo er þessi umræða um þessar skerðingar á öllu sem kannski verður til þess að sumt fólk neyðist kannski til að vinna lengur en það vildi, það finnst mér mjög vont mál.“