Ásgeir Hólm er 78 ára gamall og vinnur hjá Húsasmiðjunni í Hafnarfirði við að selja málningu, er búinn að vera í málningardeildinni í tuttugu ár. „Ég vinn þrjá daga í víku, man ekki hver prósentan er, svo hleyp ég inn í ef það eru veikindi og svoleiðis, þá er hringt í mig og maður bara mætir og bjargar málunum.“
Kominn á enn-aldurinn
Hann segist vera kominn á enn-aldurinn. „Menn segja stundum, ertu enn að vinna? Það liggur við að menn segi ertu enn að fara á fætur á morgnana? Ertu enn að anda og svona? Ertu bara enn lifandi, nánast,“ útskýrir hann og hlær. Hann tekur þessar enn-spurningar ekki nærri sér. „Maður á ekki að vera að ergja sig á þessu en það er svolítið gaman að því þegar menn segja: já þú ert svona gamall! Þá hefur maður á tilfinningunni, bíddu, hvað gerði ég af mér? Hvar klikkaði ég að verða svona gamall? Ég hlýt að hafa tekið ranga beygju einhvers staðar? Ég segi við þetta fólk: Þú náttúrulega gerir ekki ráð fyrir því að verða gamall.“ Finnst honum vinnufélagar, sem margir hafa ekki lifað nema þriðjung eða fjórðung af hans ævi skilgreina hann út frá aldrinum?
„Það er voðalega misjafnt, oft er þetta bara sagt í gríni. Ef maður tekur inn á sig alla svona hluti er maður bara kominn í þunglyndi.“