Hvalveiðar skaða lambakjötssölu

16.04.2014 - 07:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Hvalveiðar hafa skaðað sölu á íslensku lambakjöti á Bandaríkjamarkaði. Á árinu 2013 var gert ráð fyrir að sala lambakjöts myndi nema 250 tonnum en þær áætlanir gengu ekki eftir.

Líklegasta ástæðan er sú að bandaríska verslunarkeðjan Whole Foods hætti að auglýsa íslenskt lambakjöt á síðasta ári, vegna hvalveiða Íslendinga.

Bændablaðið greinir frá þessu í dag. Á árinu 2012 nam salan um 200 tonnum og var það besta árið fyrir íslenskt lambakjöt á Bandaríkjamarkaði frá upphafi. Hafði salan farið vaxandi ár frá ári og var því gert ráð fyrir 50 tonna söluaukningu árið 2013. Allt lambakjöt sem flutt er út til Bandaríkjanna kemur frá sláturhúsi KVH á Hvammstanga.

Í samtali við Bændablaðið segir Magnús Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri KVH, að samkomulag hafi verið gert við Whole Foods árið 2009 um að verslunarkeðjan léti af kynningu á íslensku lambakjöti vegna hvalveiða Íslendinga. Einhverra hluta vegna hélt keðjan þó áfram að kynna íslenskt lambakjöt, allt þangað til í fyrra.

Sú staðreynd að salan hafi haldist í 200 tonnum án auglýsinga sýni í raun sterka markaðsstöðu íslensks lambakjöts í Bandaríkjunum.  Magnús segir að von sé á fulltrúum frá Whole Foods á næstu mánuðum til viðræðna um framhald lambakjötssölu vestanhafs. Komi í ljós að sala á íslensku kjöti skaði ímynd fyrirtækisins, býst Magnús allt eins við að samstarfinu verði sjálfhætt. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi