Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvalirnir hvergi sjáanlegir í dag

14.08.2018 - 09:45
Mynd með færslu
Myndin er úr safni Mynd: Jón Þór Víglundsson - RUV
Grindhvalavaðan sem gerði sig heimakomna í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi í fyrradag og aftur í gær hefur ekki látið sjá sig þar í dag. Þetta segir björgunarsveitarmaðurinn Einar Þór Strand. Vaðan var rekin út úr firðinum í annað sinn í gærkvöld eftir að búið var að koma einum hvalanna á flot sem hafði strandað á grynningum.

Í þetta sinn voru þeir reknir lengra á haf út, út í ál sem liggur meðfram fjöllunum utan við Kolgrafafjörð og Grundarfjörð. „Það virðist hafa dugað,“ segir Einar. „Þangað til annað kemur í ljós.“

Hann segir að björgunarsveitirnar séu til taks ef ske kynni að hvalirnir sneru aftur í fjörðinn. Kæmi til þess yrði líklega óskað eftir ráðleggingum um framhaldið frá Matvælastofnun.