Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hvalir ekki eins greindir og margir halda

10.11.2013 - 20:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný rannsókn á heilum hvala, sem unnin var hér á landi að hluta, bendir til þess að þeir hafi lítið sem ekkert minni. Illa gekk að fá niðurstöðurnar birtar í vísindaritum enda er rannsóknarefnið umdeilt.

Vísindamenn sem rannsökuðu heilastarfsemi í hvölum þurftu að leita til nokkurra vísindarita áður en niðurstöður fengust birtar. Þær benda til þess að hvalir séu ekki eins greindir og margir halda fram. Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík tóku þátt í rannsókninni og söfnuðu meðal annars heilum úr hrefnum. Hvalaheilar voru bornir saman við heila annarra spendýra og áhersla lögð á að skoða svæði í heilanum sem kallast drekinn, eða hippocampus. Hann er meðal annars nauðsynlegur til að geyma minningar og kalla þær fram. Við skoðun kom í ljós að þessi hluti heilans er smár hjá hrefnum. „Þegar við skoðum sjávarspendýrin, hnísuna og höfrungana og hrefnuna, þá gilda önnur lögmál. Hippocampusinn er greinilega smár,“ segir Karl Ægir Karlsson, dósent í heilbrigðisverkfræði við HR. 

Ástæðan getur verið sú að hvalir sofa lítið og mynda nær engar nýjar taugafrumur á þessu svæði, ólíkt öðrum spendýrum þar sem nýjar frumur sjást greinilega. En hvað þýðir þetta? „Augljósasta túlkunin væri sú að spendýr sem er svona innréttað eigi mjög erfitt, mjög erfitt með að festa í sessi nýja atburði og kalla þá fram aftur, erfitt með að mynda minningar. Erfitt með vitsmunastarf, sem gengur augljóslega í berhögg við hugmyndir manna um að hvalir séu mjög greind dýr.“ segir Karl Ægir.

Niðurstöðurnar voru nýlega birtar í tímaritinu Brain Structure and Function, en áður höfðu ritstjórnir nokkurra tímarita neitað að birta þær. „Ritstjórum blaða gæti þótt það vera siðferðislega rangt af sér að birta greinina vegna þess að hún gæti verið notuð sem frekari réttlæting á hvalveiðum.“ segir Karl Ægir. Nánar er fjallað um málið í Landanum.