Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Hvaða fífl sem er getur sagst ætla að virkja“

Mynd: RÚV / RÚV

„Hvaða fífl sem er getur sagst ætla að virkja“

21.12.2019 - 16:12

Höfundar

„Mér finnst við sjá fyrir endalok tímans. Jöklarnir voru táknmynd eilífðarinnar en eru það ekki lengur,“ segir Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur í nýrri heimildarmynd um skáldaferil hennar. Hún talar meðal annars um hvílíkan ugg það veki í brjósti hennar að fylgjast með því hvernig samlandar hennar komi fram við náttúruna.

Steinunn á fimmtíu ára höfundaafmæli um þessar mundir og var eina konan í hópi Listaskáldanna vondu sem fylltu Háskólabíó árið 1976. Þar las hún upp heimsósómaljóð um loftslagsbreytingar og ábyrgð mannkyns, langt á undan sinni samtíð. Steinunn, sem er tvímælalaust einn ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar, býr um þessar mundir í Strassborg í norðausturhluta Frakklands. Hugurinn ber hana oft heim og þá gjarnan til jöklanna íslensku sem henni eru afar kærir. Í nýrri heimildarmynd um Steinunni sem nefnist Verksummerki og sýnd er á RÚV á sunnudag klukkan 20:45 ræðir Arthúr Björgvin Bollason við Steinunni á heimili hennar um skáldskapinn og hennar helstu ástríður og baráttumál. Í Frakklandi býr hún í þögn og friði, umkringd fuglasöng og kindajarmi sem hún segir að séu kjöraðstæður til að yrkja við.

Eilíft verður að engu

Í nýjustu ljóðabók sinni Dimmumótum fjallar Steinunn um dauðastríð Vatnajökuls. Hún segist fyllast mikilli sorg yfir því að fylgjast með honum hverfa og skreppa saman á ógnarhraða og að þær breytingar sem eru að verða á íslenskum jöklum í kjölfar hamfarahlýnunnar hafi ekki aðeins áhrif á loftslag heldur hafi þær líka dýpri, táknræna merkingu. Jökullinn hafi verið táknmynd óforgengileikans, eitthvað sem væri eilíft og óhagganlegt en það sé til merkis um að við nálgumst óðfluga einhvers konar endalok að fylgjast með því eilífa verða að engu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Steinunn segir óhugnarlegt að sjá jöklana skreppa saman á ógnarhraða

Gæti horfið fyrir næstu aldamót

„Jökullinn var táknmynd óforgengileikans eins og kemur fram í Kristnihaldi undir jökli. Sömu tilfinningu hafði maður í Heimsljósi líka og þegar ég skrifaði Hjartastað var hann enn óforgengilegur. Tíu árum síðar þegar ég klára Sólskinshest og söguhetjan er við það að kveðja þennan heim þá horfir hún á Eyjafjallajökul og hugsar: Ekki einu sinni jökullinn verður þarna alltaf,“ rifjar hún upp. Nú horfi hún, líkt og söguhetja Sólskinshests, á Vatnajökul og fær sting í hjartað þegar hún sér hve mikið og hratt hann hefur rýrnað. „Hann hefur eyðst svo ofboðslega og bráðnað frá því ég þekkti hann best og hann náttúrulega hverfur fyrst sunnan megin og vestan megin. Það er svo stutt í að þessi táknmynd eilífðarinnar hverfi alveg, það gæti farið svo fyrir næstu aldamót.“

Engu líkara en að Íslendingar séu óvinir landsins

Steinunn segir að þessi óhugnanlega og hraða þróun breyti þannig skynjun fólks á tímanum og að það sé hryllingssaga hvernig Íslendingar hafa umgengist landið. Engu líkara sé en að í Íslendingum leynist óvinur landsins. „Það sést á því hvernig við réðumst á landið og eyðilögðum það með skurðum og fullkomlega ónauðsynlegum virkjunum eins og Kárahnjúkavirkjun sem er til þess eins að búa til rafmagn fyrir stóriðju sem fer með ágóðann úr landi.“

„Þetta er náttúrulega leikhús fáránleikans“

Vel uppýst fólk átti sig ekki einu sinni á því hve stór hluti orkunnar sé fluttur úr landi. „Mér finnst það þurfi að stórauka meðvitund okkar um það hvað við höfum. Það er eins og þeir sem stjórna landinu átti sig ekki á þeirri auðlind sem náttúra okkar er en hún er án efa okkar stærsta auðlind. Meira að segja eftir að ferðamenn allra landa byrjuðu að flykkjast hingað og halda uppi efnahagnum á að halda áfram að ráðast á landið,“ segir hún alvarleg. „Hvaða fífl sem er getur komið og sagst ætla að virkja og virkjunin fær umsögn. Það er engin sía á undan, allir svokallaðir virkjanakostir fá umsögn. Þetta er náttúrulega leikhús fáránleikans.“

Íslendingar eru einnig afleitir í baráttunni við hlýnun jarðar, að mati Steinunnar og haga sér eins og þeir séu ekki hluti af heiminum „Þetta er eitthvað sem við verðum að taka á ef við ætlum að vera þjóð með þjóðum og fólk með fólki.“

Heimildarmyndin Verksummerki fjallar um rithöfundinn og hugsjónakonuna Steinunni Sigurðardóttur sem á 50 ára rithöfundarafmæli á árinu 2019. Í myndinni er fjallað um verk hennar í gegnum tíðina, gildi skáldskaparins og mikilvægi baráttunnar fyrir því að vernda náttúruna í sinni stærstu og smæstu mynd. Myndin er sýnd á RÚV á sunnudagskvöld klukkan 20:45. Dagskrárgerð: Jón Egill Bergþórsson og Arthúr Björgvin Bollason. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Skiljanleg reiði Steinunnar yfir dauðastríði jökulsins

Bókmenntir

Vil alls ekki vera kölluð „geðþekk“