Steinunn á fimmtíu ára höfundaafmæli um þessar mundir og var eina konan í hópi Listaskáldanna vondu sem fylltu Háskólabíó árið 1976. Þar las hún upp heimsósómaljóð um loftslagsbreytingar og ábyrgð mannkyns, langt á undan sinni samtíð. Steinunn, sem er tvímælalaust einn ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar, býr um þessar mundir í Strassborg í norðausturhluta Frakklands. Hugurinn ber hana oft heim og þá gjarnan til jöklanna íslensku sem henni eru afar kærir. Í nýrri heimildarmynd um Steinunni sem nefnist Verksummerki og sýnd er á RÚV á sunnudag klukkan 20:45 ræðir Arthúr Björgvin Bollason við Steinunni á heimili hennar um skáldskapinn og hennar helstu ástríður og baráttumál. Í Frakklandi býr hún í þögn og friði, umkringd fuglasöng og kindajarmi sem hún segir að séu kjöraðstæður til að yrkja við.
Eilíft verður að engu
Í nýjustu ljóðabók sinni Dimmumótum fjallar Steinunn um dauðastríð Vatnajökuls. Hún segist fyllast mikilli sorg yfir því að fylgjast með honum hverfa og skreppa saman á ógnarhraða og að þær breytingar sem eru að verða á íslenskum jöklum í kjölfar hamfarahlýnunnar hafi ekki aðeins áhrif á loftslag heldur hafi þær líka dýpri, táknræna merkingu. Jökullinn hafi verið táknmynd óforgengileikans, eitthvað sem væri eilíft og óhagganlegt en það sé til merkis um að við nálgumst óðfluga einhvers konar endalok að fylgjast með því eilífa verða að engu.