Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hvað vildu forystumennirnir vita?

Mynd: Skjáskot / RÚV
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna, sem bjóða fram um land allt á morgun, fengu í leiðtogaumræðunum í kvöld tækifæri til að spyrja einhvern hinna spurningar og sköpuðust líflegar umræður.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði Helga Hrafn Gunnarsson Pírata út í það hvernig hann telji að hægt verði að byggja upp heilindi og traust svo ríkisstjórn geti unnið næstu fjögur árin. Hvernig hægt verði að komast upp úr hjólförunum. Helgi Hrafn segir að vandinn  í pólitík sé kerfið, reglurnar, stjórnarskráin og þingskaparlög en ekki fólkið. Kerfislega ábyrgð vanti. Gott dæmi sé hvernig þingrof og vantrauststillögur eru meðhöndlaðar. Ræða þurfi hvernig breyta eigi kerfinu og reglunum til að hafa hemil á stjórnmálamönnunum. „Vegna þess að við getum ekki treyst stjórnmálamönnum til að gera það að eigin frumkvæði. Svo mikið er skýrt.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins út í afstöðu hans til þess hvort honum finnist forgangsröðun í heilbrigðiskerfisins rétt eða hvort forgangsraða eigi meira í opinbera kerfið eins og meirihluti þjóðarinnar vilji. Bjarni segir að bætt hafi verið 60 milljörðum króna í velferðarmálin á síðustu þremur til fjórum árum, þar á meðal í sjúkrahús og forgangsraðað í hækkun launa. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að þrengja að sérfræðilæknum sem fólkið í landinu þurfi að leita til.  

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar spurði Þorgerði Katrínu út í slagorð Viðreisnar, hægri hagstjórn - vinstri velferð og sagði fullyrðinguna ekki ganga upp. Þorgerður segir að ef flokkurinn fari af miðju yfir til vinstri í stjórnarsamstarfi þurfi að bremsa af vinstri flokka í skattlagningu. Viðreisn vilji vera bremsan til vinstri og undirstrika velferðarkerfið ef unnið yrði með hægri flokkum.  

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurði Bjarna hvort stjórnmálamenn séu undanþegnir því að standa við loforð sín.  „Nei, að sjálfsögðu erum við það ekki,“ svaraði Bjarni. „Á morgun fáum við uppgjör vegna þess sem við höfum verið að starfa við. Eins og í hverjum kosningum þurfum við að leggja verk okkar í dóm kjósenda.“ Hann hefði sjálfur ekki trúað því fyrir kosningarnar árið 2013 að staðan yrði sú í dag sem hún er og það sé allri þjóðinni að þakka. 

Helgi Hrafn spurði út í minnihlutastjórnir sem ekki sé hefð fyrir og spurði Bjarna undir hvaða kringumstæðum Sjálfstæðisflokkurinn væri reiðubúinn til að styðja minnihlutastjórn. Bjarni segir að það færi eftir úrslitum kosninga og stöðu flokksins. Leggja þyrfti heildarmat á stöðuna. Minnihlutastjórn gæti komið til greina við mjög sérstakar aðstæður með stuðningi Sjálfstæðisflokksins en sér ekki fyrir sér að það geti gerst á morgun. 

Sigurður Ingi spurði Bjarna spurði Bjarna hvort hann væri til í að útfæra svissnesku leiðina með Framsóknarflokknum til að hjálpa ungu fólki að eignast eigið húsnæði. Bjarni segir að viðbótarlífeyrissparnaður hafi verið tekinn frá í þessum tilgangi. Til að ganga enn meira á lífeyrissparnað í þessum tilgangi þyrfti að kanna hverjar afleiðingarnar kynnu að vera annars vegar fyrir ríkið og hinsvegar fyrir lífeyrisréttindi þess sem nýtir sparnaðinn í þessum tilgangi. Hann tengdi þetta líka við stöðu eldri borgara framtíðarinnar sem þyrfti að fá svör við.  

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Katrínu hvort hún hefði áhyggjur af því að missa atkvæði með því að neita að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Að með því myndu atkvæði sem flokkurinn hefði annars getað fengið detta niður dauð og þannig ekki nýtast inn í ríkisstjórn. Hvað hún segi við þá kjósendur sem lögðu traust á hana til að gera breytingar. Katrín segist þeirrar skoðunar að allir eigi að kjósa eftir sinni sannfæringu. Hún hafi ekki viljað fara út í stjórnarmyndun fyrir kosningar, það hafi ekki gefist vel fyrir kosningarnar í fyrra. Fólkið í landinu viti fyrir hvað Vinstri græn standi. „Ríkisstjórnarþátttaka fyrir okkur þýðir að hafa raunveruleg áhrif í ríkisstjórn,“ sagði hún. Þetta snúist um verkefnin. „Mesta samleið eigum við með flokkum frá vinstri að miðju.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðjuflokksins, spurði Björtu út í efasemdir flokksins um skuldaleiðréttinguna. Hvers vegna henni finnist það ekki hafa verið eðlilegt að ríkisstjórnin hefði látið kröfuhafa föllnu bankanna bæta fólkinu það tjón sem þeir bjuggu til. Björt sagði flokkinn vera mjög á móti skuldaleiðréttingunni því hún hafi gefið innstæðu á sum verðtryggð lán en ekki öll. „Það er bara ósanngjarnt. Það var ekki horft til ungs fólks, þeirra sem skulduðu minna eða átti húsnæði út á landsbyggðinni. Þessi aðgerð fór mest til þeirra sem skulduðu mest og áttu stærstu eignirnar. Þessu vorum við mótfallin og myndum hafa óskað þess að þessir peningar hefðu farið í innviðauppbyggingu eins og Landspítalann.“

Bjarni spurði Katrínu út í aðild að ESB og hvernig kjósendur geti treyst því eftir kosningar að stefnu VG um að halda Íslandi utan ESB verði fylgt. Hvernig hún hyggist beita sér í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Katrín segir að það hafi verið mistök hjá VG að boða ekki þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sótt var um aðild. Ekki verði sótt um aðild aftur án þess að njóta leiðsagnar þjóðarinnar. Hún segist vera á móti ESB og myndi beita sér gegn aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þær leiðir sem Íslendingar hafi beitt fyrir ungt fólk, millitekjufólk og lágtekjufólk hafi gefist betur en það sem gert hafi verið fyrir þessa hópa innan ESB. 

Breytingar voru gerðar á fréttinni klukkan 7:00. Orðalag var lagað í spurningum og svörum. Hægt er að horfa á allar spurningarnar og svörin við þeim í spilaranum hér fyrir ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV