Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hvað kosta matvæli í raun og veru?

17.11.2015 - 14:00
Eins og mannanafnanefnd gætu margir tengt nafnið Sukki við sukk, eins og til að mynda að háma í sig skyndibita. - Mynd: - / pixabay.com
Verð á matvælum gefur ekki rétta mynd af raunkostnaðinum. Inn í verð matvæla vantar hluta af kostnaðinum sem framleiðsla matvælanna hefur í för með sér.

Um þetta fjallar Stefán Gíslason í pistli sínum í Samfélaginu á Rás 1.


Matvælaverð

Ég hef einhvern tímann haft á orði í pistli á borð við þennan að matur sé líklega allt of ódýr. Eðlilega eru margir ósammála þeirri staðhæfingu, því að vissulega vega matarinnkaup hlutfallslega þungt í heimilisbókhaldi margra fjölskyldna, sérstaklega þeirra sem hafa minnst handa á milli.

Samt ætla ég að halda mig við sama heygarðshornið og halda því enn og aftur fram að matvælaverð sé of lágt, ekki vegna þess að fólkið í landinu þurfi endilega að losna við stærri hluta af ráðstöfunartekjum sínum þegar það fer að kaupa í matinn – og heldur ekki vegna þess að hagnaður matvöruverslana þurfi nauðsynlega að aukast, heldur vegna þess að inn í verð matvæla vantar hluta af kostnaðinum sem framleiðsla matvælanna hefur í för með sér.

Og ef sá sem kaupir vöruna og neytir hennar greiðir ekki nema hluta af raunkostnaði, hver borgar þá það sem á vantar? Stutta svarið við þeirri spurningu er, að það sem á vantar er skrifað á reikning komandi kynslóða, án þess þó að þessar komandi kynslóðir hafi nokkurn tímann samþykkt viðskiptin.

Ósýnilegur kostnaður matvælaframleiðslu

Síðastliðinn fimmtudag var haldinn býsna áhugaverð málstofa vestur í Washington á vegum alþjóðlegu hugveitunnar Food Tank, þar sem rýnt var í ósýnilegan kostnað vegna framleiðslu matvæla. Málstofan var haldin í tilefni af því að þennan sama dag kom út skýrsla undir yfirskriftinni The Real Cost of Food, eða Hinn raunverulegi kostnaður við matvælaframleiðslu. Í þessari skýrslu kemur fram sitthvað áhugavert um umhverfislegan, samfélagslegan og heilsufarslegan kostnað sem hlýst af framleiðslu og neyslu matvæla, en er greiddur af einhverjum öðrum en þeim sem sjá um þessa framleiðslu og neyslu.

Í kynningarefni sem sent var út fyrir málstofuna eru nefnd nokkur einföld dæmi um kostnað af því tagi sem hér um ræðir. Þar kemur m.a. fram að áætlað sé að á hverju ári snæði Bandaríkjamenn u.þ.b. 16 milljarða hamborgara af öllum stærðum og gerðum. Meðalverð ostborgara, svo dæmi sé tekið, er þar sagt vera 4,49 dollarar. Inn í þá tölu vanti hins vegar fjárhæð á bilinu 0,68-2,90 dollara upp í óbeinan kostnað samfélagsins vegna þessa eina borgara – og þá er aðeins verið að tala um þann kostnað sem auðvelt er að reikna út. Verðið þyrfti sem sagt að vera 15-65% hærra en það er ef ætlunin væri að fella óbeina kostnaðinn inn í verðið. Í þessu sambandi er m.a bent á að fyrir hvert kíló sem framleitt er af nautakjöti losni 27 kíló af koltvísýringi út í andrúmsloftið og fyrir ostinn sé kolefnisfótsporið 13,5 kíló fyrir hvert kíló af osti. Kostnaðinn sem af þessu hlýst er hvergi að finna í verðinu á matseðlinum.

Þó að hamborgarar hafi verið nefndir hér sem dæmi eru þeir ekkert endilega verri en annar matur hvað óbeina kostnaðinn varðar. Í skýrslunni sem kynnt var á fimmtudaginn kemur t.d. líka fram að 250 gramma pakki af kaffi úr hefðbundinni ræktun sem seldur er í matvöruverslun í Bandaríkjunum fyrir 2 dollara þyrfti í raun að kosta 5,17 dollara til þess að útsöluverðið endurspegli raunverulegan kostnað. Þarna þyrfti með öðrum orðum að bæta heilum 158,5% við útsöluverðið til að það feli í sér allan kostnaðinn.

Sá óbeini kostnaður vegna matvæla sem hér er gerður að umræðuefni skiptist á marga kostnaðarliði. Einn þessara kostnaðarliða er offita, sem er vissulega eitt þeirra kostnaðarsömu vandamála sem augljóslega á rætur að rekja til óhófs og óhollra matvæla. Í skýrslu frá McKinsey frá árinu 2014 kemur fram að um 30% jarðarbúa glími við ofþyngd eða offitu og að kostnaðurinn sem af því hlýst sé um 2.000 milljarðar dollara á ári eða um 2,8% af samanlagðri landsframleiðslu allra þjóða heims. Þessi kostnaður endurspeglast ekki í verði matvælanna sem eiga mestan þátt í vandamálinu.

Annar dæmigerður kostnaðarliður sem tengist matvælaframleiðslu en kemur aðeins að litlu leyti fram í verði til neytenda er vatnsskortur, sem leiðir af óhóflegri vatnsnotkun í landbúnaði. Eins og staðan er í dag notar landbúnaðurinn í heiminum um 70% af öllu tiltæku ferskvatni. Þegar grípa þarf til kostnaðarsamra aðgerða til að útvega fólki þennan lífsnauðsynlega vökva, t.d. með því að eima sjó, fellur sá kostnaður væntanlega að miklu leyti á viðkomandi ríki og þær kynslóðir sem þá byggja landið. Ef allt væri með felldu ætti þessi kostnaður að vera inni í verði matvælanna frá upphafi. Fólki væri þá í lófa lagið að velja mat sem er ekki eins frekur til vatnsins í framleiðslu, eða þá að borga raunverð fyrir vatnsfreka matinn og mynda þannig sjóð sem nýtist til að taka á vandanum.

Gróðinn einkavæddur, tapið þjóðnýtt

Þegar rýnt er í skýrsluna The Real Cost of Food kemur margt fleira athyglisvert í ljós, m.a. að ef við höldum áfram að leiða hjá okkur þennan óbeina kostnað muni það hafa veruleg neikvæð áhrif á alla heimsbyggðina. Útgjöldin sem neytandinn sleppur við til skamms tíma eru færð yfir á samfélagið – og þá sérstaklega þá sem minnst mega sín, þ.m.t. fólk í þróunarlöndunum. Þessi kostnaður kemur hvergi fram í bókhaldi einkafyrirtækja sem eru rekin í samtímanum með góðum hagnaði. Þarna er sem sagt á ferðinni enn eitt dæmi um þá tilhneigingu að einkavæða gróðann en þjóðnýta tapið.

Stefna stjórnvalda á auðvitað stóran þátt í þeirri skekkju sem hefur myndast í hagkerfinu vegna þess að kostnaði við framleiðslu matvæla og annarrar vöru er velt yfir á aðra en þá sem kaupa vöruna, þ.á m. á komandi kynslóðir. Framleiðslustyrkjum í landbúnaði er til að mynda oft beint í rangar áttir hvað þetta varðar. Þannig nýtur ræktun á maís og soja víða mjög hárra ríkisstyrkja, enda þótt þessar tegundir séu uppistaðan í ódýrum skyndimat sem hefur miklu meiri neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu en t.d. grænmeti og ávextir. Í Bandaríkjunum einum fara meira en 5 milljarðar dollara á ári í að styðja við ræktun á maís og soja, sem er næstum 14 sinnum hærri upphæð en sem nemur öllum styrkjum til ávaxta- og grænmetisræktunar. Samtök bandarískra vísindamanna hafa áætlað að ef allir Bandaríkjamenn myndu borða ráðlagðan dagskammt af ávöxtum og grænmeti myndi það afstýra 127.000 dauðsföllum á ári og spara heilbrigðiskerfinu 17 milljarða dollara.

Fyrsta skrefið að draga úr sóun

Nú er eðlilegt að spurt sé hvað sé til ráða. Karl Bretaprins og fleiri hafa talað fyrir því að matvælaframleiðendum verði beinlínis gert skylt að reikna allan samfélagslegan kostnað framleiðslunnar inn í söluverðið. Þetta er auðvitað ekkert auðvelt í framkvæmd, en öllum sem skoða málið hlýtur þó að vera ljóst að við getum ekki endalaust haldið áfram að velta kostnaðinum af eigin neyslu, hvort sem það er neysla á matvælum eða einhverju öðru, yfir á samfélög í öðrum löndum og á komandi kynslóðir sem aldrei hafa samþykkt að borga þetta fyrir okkur. Fyrsta skrefið inni á hverju heimili væri hins vegar að draga úr sóun. Það væri stórt skref í áttina.

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður