Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hvað er þriðji orkupakkinn?

19.11.2018 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Íslensk stjórnvöld hyggjast leggja frumvarp um þriðja orkupakka ESB fyrir Alþingi í febrúar á næsta ári. Mikið er rætt um orkupakkann enda er óvíst að hann njóti stuðnings meirihluta þingmanna á Alþingi. En hvað er þriðji orkupakkinn? Í hverju felst ágreiningurinn? Og hvers vegna er rætt um Evrópulöggjöf hér?

Hvað er þriðji orkupakkinn?

Evrópusambandið hefur skipt sameiginlegri löggjöf sinni um orkumarkað í nokkra liði – svokallaða pakka. Orkupakkarnir eru þegar orðnir þrír og hafa öll ríki ESB og EES samþykkt og innleitt alla pakkana fyrir utan Ísland, sem á enn eftir að innleiða þriðja pakkann.

Löggjöfinni er skipt upp með þessum hætti til þess að einfalda innleiðingu og aðlögun á markaði. Saman skapa orkupakkarnir sameiginlegan markað með raforku og gas, þvert á landamæri aðildarríkja evrópska efnahagssvæðisins (sem Ísland á aðild að).

Fyrsti pakkinn var samþykktur á 10. áratugnum en þar hófst vinna við að gera orkumarkaði í Evrópu aðgengilegri fyrir nýja samkeppni, enda höfðu markaðsráðandi fyrirtæki ráðið þar lögum og lofum. Annar pakkinn var samþykktur 2003 en með honum var neytendum tryggður réttur til þess að velja frá hvaða framleiðanda þeir keyptu raforku eða gas.

Þriðji orkupakkinn var afgreiddur úr Evrópuþinginu árið 2009 en með honum er frjáls samkeppni tryggð á nýjum innri markaði Evrópusambandsins með raforku og gas, þvert á landamæri aðildarríkjanna.

Markmiðum reglugerðarinnar er skipt í fimm þætti:

  • Slíta í sundur rekstur orkuframleiðenda og dreifikerfa
  • Styrkja sjálfstæði eftirlitsaðila
  • Stofnun ACER, yfirþjóðlegrar eftirlitsstofnunar með úrskurðarvald í ágreiningsmálum milli ríkja
  • Samstarf þvert á landamæri um dreifikerfi og stofnun samstarfsvettvangs fyrir rekstraraðila dreifikerfa
  • Aukið gagnsæi á neytendamarkaði

Til einföldunar má segja að pakkinn sé regluverk um flutning orku milli landa og um stofnun nýrrar orkustofnunar Evrópu (ACER). Stofnunin er samstarfsstofnun orkustofnana hvers aðildarríkis og hefur úrskurðarvald í deilum milli eftirlitsyfirvalda einstakra ríkja.

Mynd með færslu
 Mynd: Hreggviður Símonarson - Landhelgisgæslan
Engin mannvirki tengja íslenskan orkumarkað við þann Evrópska. Þess vegna munu valdheimildir nýrrar eftirlitsstofnunar ekki ná yfir Ísland.

Hvers vegna er verið að ræða þriðji orkupakkinn hér?

Ísland er hluti að evrópska efnahagssvæðinu (EES) og þarf þess vegna að innleiða hluta af regluverki Evrópusambandsins. Á Evrópuvefnum má lesa að íslenskum stjórnvöldum ber að lögfesta þær ESB-reglugerðir sem falla undir EES-samninginn.

Reglugerð ESB um þriðja orkupakkann fellur undir EES-samninginn og kemur til kasta Alþingis í febrúar á næsta ári þegar ríkisstjórnin hyggist leggja málið fram.

Hvenær tekur þriðji orkupakkinn gildi?

Þriðji orkupakkinn var samþykktur í Evrópuþinginu árið 2009 og tók þá gildi í öllum aðildarlöndum ESB, eins og allar reglugerðir sambandsins. Í löndunum sem eru aðilar að EES-samningnum í gegnum EFTA (Ísland, Noregur og Liechtenstein) þurfa þjóðþingin að fjalla um málið og innleiða nýjar reglugerðir í lög. EFTA-ríkin þurfa að innleiða allar reglugerðir ESB en fá stundum undanþágur frá einstaka liðum reglugerða eða reglugerðum í heild.

Þriðji orkupakkinn tekur gildi á Íslandi eftir að Alþingi hefur innleitt hann í lög hér á landi.

Mynd með færslu
 Mynd:
Þriðji orkupakkinn kemur til kasta Alþingis í febrúar, en þá hyggist ríkisstjórnin leggja málið í dóm þingheims.

Hver eru ágreiningsefnin um þriðja orkupakkann?

Þriðji orkupakkinn hefur verið ágreiningsefni hér á landi vegna þess að sumir telja reglugerðina fela í sér framsal á fullveldi Íslands til ACER-eftirlitsstofnunarinnar. Þá hefur það verið talið til að löggjöfin sé samin fyrir allt aðrar aðstæður en á Íslandi og að Ísland sé ekki tengt sameiginlega markaðinum.

Andstaða við þriðja orkupakkann fylgir ekki endilega flokkslínum. Andstöðu hefur gætt í öllum flokkum, þar með talið ríkisstjórnarflokkunum þremur, jafnvel þó forysta ríkisstjórnarinnar hafi ekki stillt sér upp á móti.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Þriðji orkupakkinn er þegar orðinn átakamál, löngu áður en hann hefur verið lagður fyrir Alþingi.

Svör utanríkisráðuneytisins um það hvaða áhrif orkupakkinn mun hafa hér á landi benda til þess að áhrifin verða afar takmörkuð og helgast það af þeirri staðreynd að Ísland er ekki beintengt evrópska orkumarkaðnum. Engin orkuflutningsmannvirki ná yfir landamæri Íslands og þess vegna nær orkumarkaðurinn hér á landi ekki undir valdheimildir ACER.

Umræðan hefur jafnframt snúist um hugmyndir um lagningu raforkusæstrengs frá Íslandi til Evrópu. Um leið og slík tenging verður til fellur Ísland undir valdheimildir ACER (í gegnum ESA, eftirlitsstofnun EFTA), verði þriðji orkupakkinn samþykktur.

Hvað gerist ef þriðja orkupakkanum verður hafnað?

Óvíst er hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér fyrir aðild Íslands að EES-samningnum. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að það yrðu stórtíðindi í íslenskri pólitík ef þriðja orkupakkanum yrði hafnað á Alþingi því það gæti sett EES-samninginn í uppnám. Slíkt hafi aldrei gerst áður á Íslandi.

Lagfært 21. nóvember 2018. - Ísland þarf ekki að taka upp allar reglugerðir ESB, eins og skilja mátti í fyrstu útgáfu fréttskýringarinnar. Það hefur verið skýrt til að forðast misskilning.