Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hvað á veturinn að heita?

11.03.2015 - 20:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vindaveturinn mikli, Belgingur og Rokrassgat hið mikla eru meðal þeirra tillagna sem fram hafa komið um heiti á vetrinum sem nú stendur yfir. Lægðir með tilheyrandi hvassviðri og ófærð hafa sett mark sitt á veturinn.

Nokkur umræða hefur skapast á Facebook-síðu Auðar Styrkársdóttur eftir að hún birti lista með nafni 31 veturs sem hefur þótt það sögulegur að hann hafi hlotið eigið nafn. Þar er að finna ýmis sögufræg nöfn og önnur sem færri hafa heyrt nefnd.

Listinn nær frá óaldavetri í heiðni árið 976 til frostavetursins mikla 1918, en eftir það er engan nafngreindan vetur að finna. Einnig má nefna nautadauðavetur 1187, hrossafallsvetur 1313, ísavor 1320 og hvítavetur 1634.

Fólk leggur til ýmis nöfn. Auk þeirra sem nefnd eru í upphafi komu fram tillögur um veðraskiptavetur, leka og lægðavetur, svo dæmi séu nefnd. Þá segir ein að ekki hafi komið ærlegur vetur eftir 1918.

Nefndur eftir veðri - eða eldgosi?
Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir að veturinn nú sé líklega sá stormasamasti það sem af er öldinni og á pari við veturna upp úr 1990. Hún telur þó að fólk líti veðrið ef til vill öðrum augum en fyrir nokkrum árum, meðal annars vegna þess að fleiri leggi fyrir sig útivist og vegna þeirra mörgu ferðamanna sem fara um landið á veturna, ólíkt því sem áður var.

Minnst 37 lægðir hafa farið yfir landið frá 1. nóvember síðastliðnum og sjaldan liðið meiri en þrír dagar milli stormviðvarana og samgöngutruflana, eins og fram kom í fréttum í gær. Elín Björk bendir þó á að ýmislegt vanti sem áður hafi einkennt þá vetur sem hafa verið í minnum hafðir, til að mynda hafís sem náði oft til lands á köldustu vetrum.

Það er þó ekki víst að veðrið verði mönnum efst í huga ef nefna á veturinn, segir Elín Björk. „Veturinn verður sennilega kenndur við eldgosið."

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV