Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hútar birtu myndband tekið með njósnadrónum

15.09.2019 - 20:16
Mynd: AP / AP
Uppreisnarfylking Húta birti myndskeið tekið með dróna sem flýgur yfir möguleg skotmörk í Sádi-Arabíu. Stjórnvöld í Bandaríkjnum kenna Íran um árásinar sem Hútar gerðu á stærsta olíufyrirtæki Sádi Arabíu í gær. Óttast er að olíuverð hækki.

Stöðva þurfti olíuframleiðslu í tveimur verksmiðjum Saudi Aramco, sem er stærsta olíuútflutningsfyrirtæki heims, eftir drónaárásir sem voru gerðar í gærmorgun. Sádi-Arabía framleiðir um 10% allrar olíu í heiminum en eftir árasirnar hefur framleiðslugetan helmingast - sem gæti vel haft áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu. 

Raunveruleg áhrif enn ókunn

Ranjith Raja, greinandi hjá Refinitiv Oil Research segir að raunveruleg áhrif séu enn ókunn. „Orkumálaráðherra Sádi-Arabíu sagðist ætla að svara því innan tveggja sólarhringa hversu mikið tjónið er. Það ræður því hvort tjónið er til skamms tíma eða varanlegt fyrir olíumarkaðinn í heild. Ef þetta eru skammtímaáhrif verður ekki mikið um sveiflur á heildarolíumarkaðnum vegna þess að sem stendur er hann knúinn af eftirspurn frekar en framboði.“

Engan sakaði í árasunum. Þær hafa samt sem áður vakið hörð viðbrögð því miklir hagsmunir eru í húfi. Uppreisnarhreyfing Húta í Jemen lýsti árásunum á hendur sér en stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að einbeita sér að Íran og kenna ráðamönnum þar í landi um. Íranar vísa þeim ásökunum alfarið á bug. Hútar birtu í dag myndband sem sýnir dróna flúga yfir möguleg skotmörk í Sádi-Arabíu þar sem undir hljómar dramatísk tónlist. Leiðtogi þeirra segir árásirnar í gær staðfesta getu til að ráðast á fleiri mikilvæg skotmörk. „Stjórnvöld í Sádi-Arabíu verða að taka viðvaranir okkar alvarlega og hætta árásum á Jemen, hætta hernaðarafskiptum sínum og fara frá Jemen áður en ástandið versnar enn,“ sagði Muhammad al-Bukhati í viðtali við fréttstofu AP.

Mynd: AP / AP
Hér má sjá myndbandið sem Hútar birtu.

Hvað eru Sádi Arabar að gera í Jemen?

Árið 2014 tóku uppreisnarmenn Húta yfir stóran hluta landsins, þar á meðal höfuðborgina Sanaa. Hernaðarbandalag stutt Bretum og Bandaríkjamönnum undir forrystu Sádi-Araba, hóf loftárásir gegn Hútum í mars 2015. Sádi Arabar vildu styrkja stöðu Mansur Hadi, sem er alþjóðlega viðurkenndur forseti Jemens, því hann er hliðhollur þeim. Hernaðaraðgerðin hlaut nafnið Úrslita stormurinn - enda var gert ráð fyrir að hún stæði stutt yfir. Rúmum fjórum árum síðar geisar enn stríð í Jemen og þar ríkir ein versta mannúðarkrísa heims. Milljónir svelta og það er nánast ómögulegt að flýja. Óman hefur hert landamæragæslu verulega eftir að stríðið hófst og landamærin við Sádi-Arabíu eru kyrfilega lokuð. 

Mynd með færslu
Hungur er einn af mörgum, skelfilegum fylgifiskum stríðsins í Jemen, og drepur þar fleiri börn en sprengjur og byssukúlur til samans Mynd:
Ástandið í Jemen hefur verið skelfilegt árum saman.