Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Húsið á Kirkjuvegi rifið í dag

15.11.2018 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - RÚV
Húsið á Kirkjuvegi sem brann á Selfossi í lok október verður rifið í dag, samkvæmt upplýsingum frá VÍS. Kona og karl létu lífið í eldsvoðanum. Lögregla hefur rökstuddan grun um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum, hvort sem það var vísvitandi eða ekki, og er karlmaður enn í gæsluvarðhaldi.  

Unnið úr rannsóknargögnum

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að lögreglan sé búin að ná utan um rannsókn málsins. Nú standi yfir úrvinnsla á gögnum frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Mannvirkjastofnunar og fleirum. Hann telur að sex til átta vikur séu í að lögreglan ljúki rannsókn og sendi málið til ákærusviðs.

Farið fram á geðmat 

Oddur segir að farið hafi verið fram á geðmat á sakborningi og að sú vinna sé hafin. Sömuleiðis sé unnið að greiningu á því hvort eldur hafi valdið almannahættu.