Húsfyllir hjá Brand

Mynd með færslu
 Mynd:

Húsfyllir hjá Brand

10.12.2013 - 01:28
Breski skemmtikrafturinn Russell Brand tvinnaði umfjöllun um forsætisráðherra Íslands í uppistand sem hann hélt í Hörpu í kvöld. Ísland er síðasti viðkomustaður í heimsferðalagi Brands með uppistandssýninguna The Messiah Complex. Eftir uppistandið dáðist leikarinn að Norðurljósum á Vatnsleysuströnd.

Í uppistandinu í kvöld birti Brand mynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og lýsti yfir þeirri skoðun sinni að Sigmundur líktist David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í útliti. Þá gerði Brand sveiflukennt gengi íslensku krónunnar og víkingaeðli Íslendinga að umfjöllunarefnum sínum. Hann skemmti fyrir troðfullu húsi í Eldborgarsal Hörpu og var vel látið af uppistandinu. 

Skemmtikrafturinn er þekktur fyrir umfjöllun sína um Miðausturlönd, Bandaríkin og trúarbrögð auk þess sem hann hefur látið sig málefni fíkla varða. Hann ávarpaði breska þingið í fyrravor þar sem hann hvatti til viðhorfsbreytingar gagnvart meðhöndlun eiturlyfjafíknar í Bretlandi. 

Brand lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 16 í dag og verður hér á landi í 2 daga. Með honum í för eru kærastan, Jemima Khan, og móðir hans.

Brand er ákaflega vinsæll í heimalandi sínu, hefur reynt fyrir sér á hvíta tjaldinu og var um tíma giftur söngkonunni Katy Perry. Brand hefur vakið mikla athygli fyrir uppátæki sín. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir að mæta sem Osama Bin Laden á MTV-verðlaunahátíð og var rekinn frá BBC2 eftir símahrekk í þætti sínum, The Russell Brand Show.  


Tengdar fréttir

Mannlíf

Russell Brand til Íslands