Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Húsarústir í Herjólfsdal

01.11.2014 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Fornleifafræðingur telur mögulegt að land hafi verið numið í Vestmannaeyjum um árið 800. Hann segir að húsarústir sem fundust við jarðsjármælingar í Herjólfsdal í sumar bendi til þessa. Niðurstöðurnar dragi hins vegar úr líkum á því að papar hafi búið í Eyjum nokkru fyrr.

Áður hafa verið leiddar að því líkur að fólk hafi búið í Vestmannaeyjum á tímabilinu 600-800, meðal annars svokallaðir papar, sem voru írskir og skoskir munkar.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur og Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur rannsökuðu Herjólfsdal í sumar með jarðsjá. Rústirnar sem komu í ljós eru umhverfis svæði sem var grafið upp á árunum 1971 til 1983 undir stjórn Margrétar Hermanns Auðardóttur. Bjarni segist hafna fyrri niðurstöðum um að byggð hafi verið í Eyjum á sjöundu öld. Hann tekur undir þær niðurstöður Margrétar að mannvist hafi verið í Vestmannaeyjum fyrir árið 871. „En það vantar að finna hýbýlin frá þessum tíma. Það er ekki samasemmerki á milli þess að finna minjar og halda því fram að þær séu bóndabýli eða landnámsbýli. Það þarf aðeins meira til. Hvers kyns þessi mannvist var hér í Eyjum vitum við ekkert um, ennþá,“ segir Bjarni.

Það er eingöngu undir heimamönnum komið hvort frekari fornleifauppgröftur verður í Herjólfsdal. Að mati Bjarna er spennandi að skoða svæðið nánar í framhaldi eldri rannsókna Margrétar. Hann telur líklegt að fólk hafi búið í Eyjum nokkrum áratugum fyrir árið 871.