Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hús rýmd á Ísafirði vegna snjóflóðahættu

13.01.2020 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Rýmingaráætlun - Veðurstofa Íslands
Veðurstofan hefur gefið út hættustig vegna snjóflóða á Ísafirði, en þegar var óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum.

Klukkan 16 í dag var einn reitur samkvæmt rýmingaráætlun fyrir Ísafjörð rýmdur, fyrir ofan Skutulsfjarðarbraut, en á reitnum er iðnaðarhúsnæði en engin íbúðarhús. Talsverður snjór hefur safnast í fjöll og er hann mjög lagskiptur. Framundan er áframhaldandi hríð og hvassviðri.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að búast megi við snjóflóðum í þessu veðri og þá jafnvel nokkuð stór. Búið er að verja þau svæði í þéttbýli á norðanverðum Vestfjörðum þar sem hætta myndi skapast við þessar aðstæður.

Talið er að snjóflóð hafi fallið ofan í lón Reiðhjallavirkjunar í Syðridal inn af Bolungarvík í hádeginu. Orkubú Vestfjarða tilkynnti að þá hafi hækkað í lóninu um 40 cm, og er það þekkt afleiðing snjóflóða úr hlíðinni ofan lónsins. Ekki er vitað um önnur snjóflóð á svæðinu síðasta sílarhringinn en flestir vegir hafa verið lokaðir og lítið skyggni er til fjalla og því ólíklegt að fréttist af flóðum.