Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hús rýmd á Ísafirði og viðbúið að fleiri snjóflóð falli

17.03.2020 - 11:30
Svona var umhorfs í appelsínugulri viðvörun og hættuástandi vegna snjóflóða á Flateyri í mars 2020
 Mynd: Ívar Kristjánsson - Aðsend
Enn er óvissuástand á Vestfjörðum öllum vegna snjóflóðahættu og hættustig á Flateyri og Patreksfirði. Búið er að rýma iðnaðarhúsnæði á Ísafirði og varðskipið Týr er komið til Flateyrar.

Snjóflóð féll í sjó á Súgandafirði í morgun, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Það sjáist á krapa í sjónum en ekki er vitað hvar það féll þar sem skyggni er lítið. Engin merki eru um flóðbylgju. Þá hefur reitur níu á Ísafirði verið rýmdur en þar er einungis iðnaðarhúsnæði.

Fólk yfirgaf heimili sín áður en tilkynnt var um rýmingu

Ívar Kristjánsson sem býr á Flateyri, segir öryggistilfinningu fylgja því að varðskipið Týr sé komið til Flateyrar. Tíu íbúðarhús og fjögur önnur voru rýmd í þorpinu í gær. Margir hafi þó verið búnir að yfirgefa heimili sín áður en tilkynnt var um rýmingu.

„Það er mikið af skynsömu fólki hérna þannig að það fór bara sjálft. Bæði til þess að vera rólegra og sofa betur,“ segir hann.

Svona var umhorfs í appelsínugulri viðvörun og hættuástandi vegna snjóflóða á Flateyri í mars 2020
Á Flateyri eru mikil snjóþyngsl. Undir þessum skafl er íbúðarhús.

Ívar segir fólki líða vel miðað við aðstæður.

„Það er náttúrulega búið að vera bylur hér og snjókoma inn á milli í tæpa tvo sólarhringa. Þannig að fólk hefur lítið farið út, eiginlega enginn skóli verið og fólk bara fast heima hjá sér meira og minna. En ég held að okkur líði ágætlega þótt það sé nú kannski alltaf eitthvað smá stress í undirmeðvitundinni.“

Langur vetur er farinn að taka á

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fyrir vestan þar til í kvöld og gul viðvörun þangað til á morgun. Veturinn hefur verið langur og stormasamur og Ívar segir að það sé farið að taka á.

„Já, ég held það séu nú ansi margir orðnir þreyttir. Kannski ekki endilega þreyttir á snjónum heldur þessu endalausa óveðri. Það er kominn hellings snjór en fólk hefur nú vanalega gaman að snjónum þegar það er gott veður,“ segir hann.

Lokað er fyrir Súðavíkurhlíð og Flateyrarveg vegna snjóflóðahættu. Flóð hafa þar fallið á báðum stöðum og eins í Dýrafirði, fjarri íbúabyggð.

Sveinn Brynjólfsson á snjóflóðavakt Veðurstofunnar segir viðbúið að fleiri flóð hafi fallið fyrir vestan. Skyggni og veður sé þó svo slæmt að ekki sé hægt að koma auga á þau. Hættustig verði að öllum líkindum í gildi til morguns.