Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hús íslenskunnar uppfyllir öryggisstaðla

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Samningar um byggingu Húss íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík voru undirritaðir rétt fyrir hádegi í dag. Fyrsta skóflustungan var tekin 2013 en eftir það hefur lítið gerst þar til nú í sumar. Í byrjun ágúst var grunnurinn steyptur. Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, segir það stórkostlega tilfinningu að framkvæmdir séu hafnar á ný.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands. Guðrún var í viðtali í hádegisfréttum RÚV í dag. Þar sagði hún meðal annars að lengi hefði verið beðið eftir því að hefja framkvæmdir aftur.

Handritin heim

Í gær ræddu menntamálaráðherrar Íslands og Danmerkur saman um að Danir afhendi Íslendingum þau fornrit sem enn eru geymd í Kaupmannahöfn. Meðal þeirra rita sem enn eru í Danmörku eru Ormsbók, eitt af höfuðhandritum Snorra-Eddu, og elsta handritið, Reykjabók Njálu. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sagðist bjartsýn á að viðræðurnar skili árangri enda yrði brátt viðeigandi húsnæði til staðar og var hún þá að vísa í Hús íslenskunnar. 

Guðrún sagði að það væri ekkert í fyrirstöðu þess að fá handritin heim. Hús íslenskunnar væri byggt eftir öllum ýtrustu öryggisstöðlum og það væri rúmgott. Hún sagði umræðuna við Dani tímabæra, 60 ár væru liðin frá því að umræðan hefði átt sér stað síðast. 

Bylting í aðstöðu stofnunarinnar

Á vef Stjórnarráðsins segir meðal annars að Hús íslenskunnar muni hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar verði sérhönnuð rými til dæmis fyrir varðveislu og rannsóknir. „Á undanförnum árum hefur ekki verið unnt að sýna þau handrit sem varðveitt eru hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en með tilkomu hússins verður bylting í aðstöðu stofnunarinnar til að varðveita, rannsaka og miðla menningararfi þeim sem handritin geyma.“ 

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í sumarlok 2023. Heildarkostnaður framkvæmda er áætlaður 6,2 milljarðar króna. Ríkissjóður fjármagnar um tvo þriðju og Háskóli Íslands um þriðjung.