Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hunter Biden rýfur þögnina

13.10.2019 - 19:41
epa07872759 (FILE) - Then US Vice President Joe Biden (R) tours a Hutong alley with his son Hunter Biden (L) in Beijing, China, 05 December 2013 (reissued 27 September 2019). An impeachment inquiry against US President Donald J. Trump has been initiated following a whistleblower complaint over his dealings with Ukraine. The whistleblower alleges that Trump had demanded Ukrainian investigations into US Presidential candidate Joe Biden and his son Hunter Biden's business involvement in Ukraine.  EPA-EFE/ANDY WONG / POOL
Hunter Biden (t.v) ásamt föður sínum, Joe Biden Mynd: EPA
Hunter Biden, sonur Joe Bidens sem keppir að því að verða forsetaframbjóðandi demókrata, ætlar að hætta í lok mánaðarins í stjórn BHR fjárfestingasjóðsins í Sjanghæ. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gert harða hríð að Hunter Biden fyrir stjórnarsetu hans í BHR og áður í orkufyrirtækinu Burisma í Úkraínu. Hunter hefur ekki tjáð sig fyrr en nú og gerir það með yfirlýsingu.

Trump og ríkisstjórn hans hafa haldið því fram að Joe Biden hafi, þegar hann var varaforseti Baracks Obama, komið því í kring að ríkissaksóknari Úkraínu yrði rekinn til þess að stöðva rannsókn á orkufyrirtækinu Burisma. Forsetinn hefur ekki sýnt fram á sannleiksgildi fullyrðinga sinna. 

Demókratar hafa sett rannsókn á því hvort Trump hafi gerst sekur um embættisglöp í símtali með Volodymyr Zelenski, forseta Úkraínu. Þar virðist forsetinn þrýsta á Zelenski að láta rannsaka Joe Biden og Hunter Biden. 

Í yfirlýsingu Hunter Bidens, sem birt er á vefsíðunni Medium, segir að hann hafi leitað eftir viðskiptatækifærum á viðeigandi hátt og í góðri trú. Hann hafi aldrei getað séð fyrir þá hríð af ósönnum ásökunum sem forsetinn hafi beint gegn honum og föður hans. Hunter Biden hafi átt í sjálfstæðum viðskiptum og ekki talið við hæfi að ræða þau við föður sinn og ekki gert það. Hann hætti í stjórn orkufyrirtækisins Burisma í Úkraínu í apríl eftir fimm ára stjórnarsetu. 
„Þrátt fyrir umfangsmikla rannsókn, hafa hvorki innlend né erlend lögregluyfirvöld aldrei haldið því fram að Hunter hafi tekið þátt í nokkru ólöglegu á þessu fimm ára tímabili,“ segir í yfirlýsingunni. Lögmaður Hunter Bidens segir að hann hafi fjárfest 420 þúsund bandaríkjadölum í BHR en ekki fengið neitt til baka. 

Trump brást við yfirlýsingunni á Twitter með því að spyrja hvar Hunter væri. Hann sé alveg horfinn. „Nú lítur allt út fyrir að hann hafi rænt og svikið jafnvel fleiri ríki. Fjölmiðlar eru víðsfjarri.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV