
Hitinn hafi óþægileg áhrif á daglegt líf fólks
Sæunn Gísladóttir, ráðgjafi í þróunarsamvinnu, sem býr í London segir að hitinn eigi að fara upp í 38 gráður þar í dag. Þetta verði heitasti dagur í sögu Bretlands. Breska veðurstofan segir hugsanlegt að hiti fari yfir 38,5 stig, en það hitastig mældist í Faversham í Kent árið 2004 og er núverandi hitamet þar í landi.
Hitinn hafi óþægileg áhrif á daglegt líf fólks. Flestir sofi illa og fæstir séu með loftkælingu heima fyrir. Sæunn segir að þetta sé ólíkt því sem hún hafi áður kynnst í Bretlandi.
Sæunn segir að London sé ekki hönnuð fyrir svona hita. „Skrifstofurnar eru margar ekki með loftkælingu. Það er ekki loftkæling í flestum neðanjarðarlestum. Fólk sem tekur lestir utan frá London til að koma í vinnuna, það er bara verið að mæla með að það ferðist ekki í dag“.
Sæunn segir að margir vinnuveitendur leyfi fólki að vinna heima í dag svo þau komist hjá því að fara í neðanjarðarlestirnar og vinna í nánast gufubaði.
„Eins og til dæmis vinkona mín var að vinna í gær og loftkælingin hætti að virka. Þá voru allir sendir heim því það var ekki talið í lagi að hafa fólk við þessar aðstæður,“ segir hún.
Íslenska sólar-samviskubitið uppskrift að sólsting
Hitamet var slegið í Þýskalandi í gær og fór hiti í 40,5 gráður í Geilenkirchen. Hlín Ólafsdóttir, listamaður og nemi, sem er búsett í Berlín segir að þau reyni að halda sig innandyra í mesta hitanum nema brýn erindi krefjist annars.
„Þessa dagana geri ég því lítið annað en að strjúka svita af enni, þjösnast við að klára ritgerð fyrir Frau Frübis og þræla í mig kaffi,“ segir hún, en Hlín er í námi úti og ritgerðarskrif annarinnar eftir.
Hún segist hafa lært af biturri reynslu að hunsa íslenska sólar-samviskubitið, sem segi manni að nýta hvern sólargeisla. Það sé uppskrift að sólsting og vandræðum.
Hlín segir að það sé munaður hversu mörg vötn eru í borginni, fólk streymi í þau til þess að kæla sig. „Við þessi vötn getur maður eytt heilu og hálfu dögunum. Það er ekki hægt að biðja um mikið meira.“
Hún segist vita til þess að þeir sem þurfi að stimpla sig inn til vinnu reyni að fá að vinna heiman frá í hitanum. Þá sé það algjört lykilatriði að fjárfesta í góðri viftu en þær seljist gjarnan upp og séu nær ófáanlegar yfir versta tímann.
„Við á mínu heimili eigum eina slíka, og þrátt fyrir að hafa dældað budduna á sínum tíma prísum við okkur sæl yfir að eiga slíka dúndurmaskínu.“