Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hungursneyð blasir við í Norður-Kóreu

03.05.2019 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa skorið niður matarskammta landsmanna og hafa þeir ekki verið minni á þessum árstíma lengi samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna þar sem varað er við hungursneyð í landinu. Rúmar 10 milljónir Norður-Kóreumanna líða matarskort í kjölfar verstu uppskeru í áratug.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna sóttu Norður-Kóreu heim í nóvember og aftur í apríl til að kanna matvælaöryggi í landinu. Þeir fóru í samyrkjubú, dreifbýli og þéttbýli og matvæladreifingarstöðvar.

Stór hluti reiðir sig á opinberar matarúthlutanir en skammtar hafa verið skornir mikið niður og fær hver íbúi nú 300 grömm matar á dag, 80 grömmum minna en á sama tíma í fyrra. Fæstir borða mikið prótín og lifa einkum á hrísgrjónum og kóresku súrkáli, kimchi.

Í tilkynningu frá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna segir að matarskorturinn í landinu sé mikið áhyggjuefni. Flestir íbúar hafi fyrir niðurskurðinn staðið afar höllum fæti og átt erfitt fyrir með afla sér matar. Þetta gæti auðveldlega leitt til hungursneyðar í landinu en á tíunda áratugnum dóu hundruð þúsunda Norður-Kóreumanna úr hungri.

Búist er við því að Rússar óski eftir auknum matarsendingum til landsins í öryggisráðinu í kjölfar skýrslunnar samkvæmt AFP fréttastofunni. Norður-Kórea sætir umfangsmiklum viðskiptaþvingunum vegna þróunar kjarnavopna. Bandaríkin, Japan og Evrópuríki segja að sökin liggi alfarið hjá Kim Jong-un, leiðtoga landsins, hann verji öllum fjármunum í kjarnavopnaáætlun sína og landsmenn sitji á hakanum með þessum afleiðingum.