Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hundruð leystir úr hlekkjum í skólahúsi

28.09.2019 - 06:16
Ryðguð keðja.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Nærri fimm hundruð drengjum og körlum var bjargað úr þrælakistu í borginni Kaduna í norðurhluta Nígeríu í vikunni. Lögregla hefur eftir nokkrum sem var haldið þar föngnum að þeir hafi verið misnotaðir kynferðislega og pyntaðir.  Drengir allt niður í fimm ára aldur voru hlekkjaðir í húsinu.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Ali Janga, lögreglustjóra Kaduna, að lögregla hafi ráðist í húsið eftir ábendingu um að eitthvað grunsamlegt væri að gerast í húsinu. Átta voru handteknir, og voru flestir þeirra kennarar. Janga segir fangana fimm hundruðu hafa tekið frelsinu fagnandi.

Lögregla hafði eftir drengjum að ættingjar þeirra hafi farið með þá í húsið, sem þeir héldu að hýsti skóla sem kenndi kóraninn, trúarrit múslima. Tveir drengjanna sögðu að foreldrar þeirra í Búrkína Fasó hafi sent þá í skólann. Lögreglan telur flesta hinna vera frá norðanverðri Nígeríu. 

Skólar sem kenna íslamstrú eru vinsælir í þessum hluta Nígeríu. Lengi hafa þó verið uppi ásakanir um ofbeldi í skólunum, og að nemendur séu neyddir til að betla á götum úti. 

Þrælunum fyrrverandi var komið fyrir í öruggu skjóli. Fjölskyldur þeirra vitja þeirra þangað. Yfirvöld í Kaduna ætla að veita körlunum og drengjunum þá heilbrigðisaðstoð sem þeir þurfa. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV