Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hundruð Íslendinga vilja keppa í megrun

28.06.2013 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Um sex hundruð manns skráðu sig í þættina The Biggest Looser á Íslandi á fyrsta degi. Aðstandendur þáttanna gleðjast yfir viðbrögðunum en ekki eru allir á eitt sáttir við þáttagerðina.

Skjár einn hefur tilkynnt framleiðslu þáttanna Biggest Looser sem eru að bandarískri fyrirmynd og miða að því að fá fólk í ofþyngd til keppa um að léttast sem mest á sem skemmstum tíma. Þáttagerðin er umdeild en engu að síður hefur mikill fjöldi skráð sig til leiks strax á fyrsta degi, eða rétt tæplega sex hundruð þátttakendur. 

Aðstandendur þáttanna segjast ekki hafa átt von á þessum viðbrögðum en opið er fyrir skráningu allt til 25. júlí. Í kynningu segir meðal annars að þúsundir einstaklinga hvaðanæva úr heiminum hafi farið í gegnum heilsuferli The Biggest Loser sem hafi gjörbreytt lífsháttum þeirra. Þar segir ennfremur að ferlið sé vottað af læknum, sálfræðingum og næringarfræðingum.

Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur og formaður samtaka um líkamsvirðingu segist hafa miklar áhyggjur af þessu og að í þáttunum komi fram röng nálgun í átt að heilsu og vellíðan. Hún segir að dregin sé upp skökk mynd af því hvað felist í þjálfun og heilbrigðu líferni. Í bandarísku þáttunum sé þrýstingur á þátttakendur til að grennast sem mest, sem eykur líkur á að farin sé óheilbrigð leið að því markmiði. Þá segir Sigrún að rannsóknir bendi til að áhorf á þættina auki fitufordóma og neikvæð viðhorf til hreyfingar. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa einhverjir þeirra sem skráðu sig gert það í mótmælaskyni líkt og gert var við skráningu í ungfrú Ísland á dögunum.