Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hundruð deila sögum af kynferðisofbeldi

29.05.2015 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: Aldís Pálsdóttir
Gríðarlegur fjöldi kvenna hefur í dag deilt reynslu sinni af kynferðisofbeldi innan hópsins Beauty Tips á Facebook. Ein kvennanna, sem fylgst hefur með umræðunni frá því í morgun og deildi sjálf sögu sinni af nauðgun og kynferðislegri áreitni, segir daginn byltingarkenndan.

„Ég held að þetta sé byrjun á byltingu,“ segir Andrea Eyland Sóleyjar- og Björgvinsdóttir. Hún segir að nýjar sögur hafi birst á nokkurra mínútna fresti í allan dag og margar stelpur og konur séu að opna sig í fyrsta sinn um ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.

Á síðunni má nú lesa ógrynni átakanlegra sagna. Sögur af nauðgunum, misnotkun í barnæsku, kynferðisofbeldi og þar fram eftir götunum. Sjálf deildi Andrea eigin sögu. Henni var nauðgað þegar hún var 21 árs. Hún sagði ekki engum frá því fyrr en mörgum árum seinna, í kjölfar þess að hafa verið áreitt kynferðislega í flugstjórnarklefa þegar hún starfaði sem flugfreyja. Þá fór hún að vinna í sínum málum. Síðan hefur hún meðal annars verið greind með alvarlega áfallastreituröskun. Hún segir að atburðirnir fyrir tveimur árum hafi ýft upp minningarnar um nauðgunina.

Andrea segir gríðarlega mikilvægt að konur stígi fram og segi sögur sínar, líkt og svo margar hafi gert í dag. Fjöldinn sem stígi fram í kjölfar þess að lesa sögur annarra sýni hvað vandinn er vanmetinn. „Að lesa þessar sögur hvetur aðrar konur til að stíga fram og segja frá. Þær þurfa að vita að þær hafa ekkert til að skammast sín fyrir. Það þarf að rífa niður þöggunarmúrinn, sem hefur engan tilgang annan en að verja gerendurna.“

Hátt í 25 þúsund konur eru meðlimir í Beauty Tips hópnum á Facebook, en karlmenn fá ekki aðgang að honum. Upphaflegur tilgangur hans var að konur gætu deilt ráðum um snyrtivörur og förðun, en segja má að hún hafi breyst í allsherjar umræðuvettvang.

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV