Hundraða milljóna bótakrafa á PwC

09.03.2012 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Slitastjórn Landsbankans hefur stefnt endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers. Þar er endurskoðendum fyrirtækisins gert að sök að hafa fallist á ranga ársreikninga sem blekktu markaðinn. Bótakrafa slitastjórnarinnar hleypur á hundruðum milljóna króna.

Stefnan er rúmar 90 blaðsíður, og endurskoðendum er gefið að sök að hafa með því að blekkingum orðið til þess að tjónið sem varð í hruninu varð meira en ella. Endurskoðendur frá PricewaterhouseCoopers voru ytri endurskoðendur Landsbankans á árunum fyrir hrun.

Þeir eru taldir hafa vitað af bágri stöðu bankans í árslok 2007, rúmum 9 mánuðum fyrir hrun. Þá var talið að fyrirtæki sem tengdust Björgólfsfeðgum, stærstu eigendum bankans, hafi verið haldið á lífi með blekkingum og yfirdráttarlánum.

Slitastjórn Landsbankans gerir athugasemdir við hvernig efnahagsreikningur bankans fyrir árið 2007 og árshlutareikningar fyrir árið 2008 eru settir fram. PricewaterhouseCoopers er gefið að sök að  að hafa fært útlánin til bókar sem miklu verðmeiri og tryggari eignir en raun bar vitni.

Í árslok 2007 hafði Landsbankinn lánað Eimskip, Icelandic Group, FL-Group og tengdum félögum tæpa 200 milljarða króna.
Fullyrt er að PricewaterhouseCoopers hafi vitað að veðin sem lágu að baki þessum lánum væru  ótrygg eða engin. Engu að síður hafi endurskoðendur fyrirtækisins tekið ákvörðun í samráði við stjórnendur Landsbankans að birta þessi röngu uppgjör, ársreikninga og árshlutareikninga. 

Leiða má líkum að því að bankinn hefði misst starfsleyfi sitt árið 2007 ef reikningarnir hefðu verið réttir. Þá hefði Icesave-innlánasöfnunin stöðvast, aldrei hafist í Hollandi vorið 2008 og umfang bankahrunsins verið mun minna. 

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar Landsbankans staðfestir að stefnan hafi verið lögð fram en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Mál slitastjórnarinnar á hendur PricewaterhouseCoopers verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 21. júní.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi