Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hundrað þúsund pinnar sem til eru gætu leyst vandann

23.03.2020 - 19:26
Mynd: RÚV / RÚV
Hundrað þúsund sýnatökupinnar sem framleiddir voru hjá Össuri eru nú í skoðun á veirufræðideild Landspítalans þar sem athuga á hvort þeir séu nothæfir til þess að greina kórónuveirusmit. Mikill skortur er á sýnatökupinnum sem eykur hættuna á að smit greinist ekki.

„Við áttuðum okkur á því strax í janúar að það yrði aukin þörf og pöntuðum þá talsvert af pinnum. En það er ekki nóg að panta pinnana, því það er mikil eftirspurn eftir þeim. Við þurftum að bíða eftir framleiðslu, og svo er ekkert í hendi fyrr en pinnarnir eru komnir. Við höfum verið að fá færri pinna en við áttum að fá,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans.

Þýskt fyrirtæki sem Landspítalinn var í viðskiptum við lokaði á sendingar og því þurfti að leita annað. Von er á sendingu með 2.500 pinnum sem áttu að fara í póst í dag. Þá er Íslensk erfðagreining einnig að panta pinna til þess að nota við skimun hjá sér. Ekki er þó vitað hvenær hún kemur. 

„Þess vegna höfum við leitað leiða til þess að framleiða pinnasett hér á Íslandi. Íslensk erfðagreining hafði samband við Össur um möguleikann á því að búa til pinna og það kom í ljós að þeir áttu sýnatökupinna, ekki eins og við höfðum verið að nota, en pinna sem við gætum hugsanlega notað. Við erum búin að prófa þá aðeins og það virðist virka svo við settum nokkra í prufu og fáum þá til rannsókna á morgun. Þá kemur í ljós hvort við getum notað þetta,“ segir Karl. 

Um eru að ræða hundrað þúsund pinna, sem Karl segir þó að séu ekki í sömu gæðum og þeir pinnar sem helst eigi að nota en það komi í ljós hvort þeir dugi til.