Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hundarnir reynast einhverfum börnum vel

24.11.2016 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: rúv - rúv
Íslenski fjárhundurinn hefur reynst börnum með einhverfu og þroskafrávik afar vel. Á heimili í Hafnarfirði hefur myndast einstök vinátta meðal sex barna og jafn margra hunda. 

Það er oft líf og fjör hér á heimili Elmu Cates og eiginamnns hennar í Hafnarfirði enda býr þar fjölskylda með sex börn á aldrinum 5-14 ára og sex íslenska fjárhunda. 

Elma og eiginmaður hennar hafa ræktað íslenska fjárhunda í mörg ár. Elsti hundurinn, og ættfaðir hinna, er Skrúður sem er tíu ára gamall. 
Skrúður á í einstöku samband við barnabarn Elmu sem er með ódæmigerða einhverfu og átti erfitt með tjáningu framan af. Hún segir hann hafa hjálpað henni að ná ró við lestur og fær stundum að fara með henni í skólann. 

„Ég á barnabarn sem er nú orðin 12 ára gömul. Hún var ekki talandi, þannig hún byrjaði í rauninni ekki að tala í skóla fyrr en hún var komin í þriðja bekk. Það var í raun með hjálpa hans sem hún fór að tala. Við byrjuðum að nota Skrúð á hana, úti frá því notum við alla hundana. Sum þessara barna eru með frávik. Við notum hundana í þeirra þjálfun og það er virkilega að gera sig,“ segir Elma. 

Hún segir íslenska fjárhundinn vera einstaklega barngóðan og henti sérstaklega vel börnum með sérþarfir. 

„Það heillaði mig alltaf þetta við íslenska fjárhundinn hvað hann var umburðarlyndur og góður með börnum, alltaf brosandi, alltaf kátur, alltaf til í að vera með manni,“ segir hún. 

Á heimilinu hafa búið fósturbörn sem hafa verið með þroskafrávik. Elma segir hundana hafa hjálpað börnunum að tengjast fólki betur. 

„Þau eru mjög miklir vinir, bæði börnin og hundarnir. Hundarnir liggja hjá þeim ef þau þurfa á knúsi og kelerí að halda þá eru hundarnir komnir. Ef þau þurfa að einbeita sér við lestur þá eru hundarnir þolinmóðir og liggja við hliðina á þeim meðan þeir eru að lesa og læra.  Það er svolítið sérstakt að sjá, ef þau gráta þá koma hundarnir alveg eins og skot og knúsa og kúra hjá þeim.“

 

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður