Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hundabann í Grímsey

05.01.2012 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Hundar hafa nú verið með öllu bannaðir í Grímsey og mega ekki einu sinni koma þangað í heimsókn. Stjórnsýslukæru vegna málsins hefur verið vísað frá.

Þegar Grímseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarbæ árið 2009 var í gildi samþykkt um hundahald á Akureyri, þar er heimilt að halda hunda.
Ekki lá fyrir formleg samþykkt fyrir hundahaldi Grímsey en af gögnum má ráða að almennt hafi verið vitað á eynni að hundahald væri bannað. 
Svo fór að kosið var um dýrahald í Grímsey samhliða sveitarstjórnarkosningum í fyrra og kusu fleiri með en á móti banni. Í kjölfarið samþykkti umhverfisráðuneytið að hundahald væri bannað í eynni og að þangað mætti ekki koma með hunda í heimsóknir.

Í kjölfarið kærði íbúi á Akureyri samþykktina. Í kærunni segir að brotið sé á rétti hans til að ferðast með hund um landið. Hluti fjölskyldu hans er búsett í Grímsey en einnig stundar hann þar einhverja atvinnu. Taldi maðurinn að sömu reglur ættu að gilda á Grímsey og Akureyri. Taldi hann að með banninu væru meðalhófsreglur stjórnsýslulaga brotnar sem og jafnræðisregla, illa hefði verið staðið að kosningu um málið og samþykktin gölluð.

Úrskurðarnefnd tók málið fyrir. Í úrskurði hennar er ekki fallist á að brotið hafi verið gegn reglunum og því séu ekki forsendur til annars en að staðfesta ákvörðun Akureyrarbæjar um að banna alfarið hundahald í Grímsey.