„Það er mikill heildarbragur á bókinni, sögurnar eru tengdar innbyrðis og persónur ganga aftur,“ segir Sunna Dís Másdóttir og nefnir þar til að mynda mormónann Austin frá Texas sem er trúboði á Íslandi, og bókin er nefnd eftir. Hún segir sögurnar helst fjalla um mannleg tengsl; til að mynda ástasambönd eða bönd milli mæðgna og vina. „Hún gerir þetti af sinni ótrúlegu næmi og er svo flink í persónusköpun. Ég sé bókina fyrir mér eins og að stíga inn í hús þar sem hver saga opnast inn í herbergi, þar sem hver saga á sér samastað í þessu fallega og vel byggða húsi, og mér fannst bara yndislegt að lesa hana.“
„Ég tek algjörlega undir þetta,“ segir Þorgeir Tryggvason. „Hún er með einhvern galdur við að komast inn í og nálægt persónum á nærgöngulan og blátt áfram hátt, en samt hlýlegan og aldrei ágengan.“ Þetta sjáist einna best í síðustu sögunni þar sem sagt er frá vinfengi deyjandi öryrkja með MS-sjúkdóminn við róna. „Þetta er ofboðslega flottar sögur og maður vill helst ekki fara út úr þeim,“ segir Þorgeir að lokum.