Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Húmorísk sýning um plastið og vatnið eftir heimsendi

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Húmorísk sýning um plastið og vatnið eftir heimsendi

27.01.2020 - 09:49

Höfundar

„Það sést á Eyðum að hér hefur verið komið á góðu samstarfi með skýrri sýn,“ segir leikhúsrýnir Víðsjár um leikdansverkið Eyður sem hópurinn Marmarabörn setti upp á stóra sviði Þjóðleikhússins.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Sviðslistahópurinn Marmarabörn frumsýndi í síðustu viku sýninguna Eyður í Þjóðleikhúsinu, en hópurinn samanstendur af Sögu Sigurðardóttur, Védísi Kjartansdóttur, Kristni Guðmundssyni, Sigurði Arendt og Katrínu Gunnarsdóttur. Þau flytja verk sín saman, sem mætti kalla performans, eða kannski leikhúsdans. Í þessum pistli ætla ég að leyfa mér að skilgreina sýninguna sem póstmódernískt plast-barokk, enda leikur hópurinn sér í íburðarmiklum plastbúningum, með tónlist Georg Friedrich Händel, Sarabande, í bakgrunni. Kvikmyndaáhugamenn kannast við lagið úr kvikmynd Stanley Kubricks, Barry Lyndon, en það var hugsanlega ekki það eina sem hópurinn sótti í smiðju leikstjórans. Tónlistin leikur stórt hlutverk í sýningunni og ásamt meðlimum hópsins situr Gunnar Karel Másson, í skínandi hvítum jakkafötum, mestallan tímann við píanóið.

Strandaglópar í eftirhamfaraheimi

Sýningin hefst eins og svo margar, í myrkri. Áhorfendur greina útlínur af alls kyns plastdrasli, reykvélar hamast við að dæla dulúð út í loftið og í fjarska stóra sviðsins skín viti. Strax í byrjun er tilfinningin sú að við séum úti á rúmsjó og þegar flytjendurnir koma á svið eru þau rennandi blaut, eins og þeim hafi skolað á land eftir skipskaða. Á plastdúkum og tjöldum sjáum við myndbönd með alls kyns myndum og oft á tíðum rautt auga, og þar með erum við komin með þrjú megineinkenni plastbarokksins, reykvélina, skjávarpann og ruslið.

Þetta er kómísk sýning og fyrsti hláturinn í salnum byrjar þegar tveir flytjendur kreista vatn úr fötunum sínum í plastdunka í þeim tilgangi að drekka það. Sem bæði vekur hlátur og klígju. Þetta er sýning sem tekur sér tíma í að byggja upp og framkvæma eins og sést. Flytjendur virðast vera að byggja nýtt samfélag upp úr öllu plastdraslinu sem væntanlega hefur skolað upp á þessari sömu strönd, þau skapa listaverk og byggingar og ný tæki með plastdúkum, dúnkum, garðstólum, fiskinetum og skóhlífum. Það mætti sjá í þessu einhverja sögu um eftirhamfara-endurvinnsluheim, einhvers konar „cargo-cult“ sem verður til eftir heimsendi, eða bara sviðslistamenn að leika sér með efniviðinn.

Sýning um sköpunarkraftinn

Það væri einfalt og þægilegt að lesa pólitíska merkingu út úr sýningunni og tala um samband plastsins og vatnsins, hvernig plastagnir mynda risavaxnar eyjar í Kyrrahafinu og eitra fyrir lífríkinu í súrnandi sjó. Hafið er alltaf nálægt og það er sérstaklega undirstrikað í mjög fallegri lokasenu þar sem stór plastdúkur á tómu sviði nær að umbreytast í heilt glitrandi silfrað haf með sannfærandi ölduhljóði. En ég hafna slíkri lesningu einfaldlega af því að hún væri svo leiðinleg og myndi hunsa algjörlega allan húmorinn í senum eins og þegar flytjendur standa í viðhafnarbúningum og spila míkadó, eða þegar þeir sitja á rassinum saman, borða pítsu og eiga innihaldslausar samræður þar sem enginn hlustar.

Ef eitthvað er þá er þetta sýning um hvernig manneskjan skapar listaverk og leiki, og týnir sér í þeim, eins og við drukknum í okkar eigin offramleiðslu. Enda er plastheimurinn sem mannkynið er að skapa ekki dæmi um eyðileggingarmátt okkar heldur sköpunarkraft.

Búningarnir þrekvirki

Ef ég ætti að bera Eyður saman við annað verk eða listamann dettur mér helst í hug danska sviðslistakonan Mette Ingvartsen og verk hennar Artificial Nature Project frá 2014. Í því verki eru þrír flytjendur sem leika sér með heim sem er algerlega búinn til úr konfettíi. Mismunandi lýsing fær konfettírigninguna til að glitra rauðleit eða silfruð, ýmist ógnandi eða friðsæl og stundum eins og danskur skógur að hausti til, sem flytjendur með laufblásara skapa myndir úr.

Í slíkum verkum er efniviðurinn í sviðsmyndinni aðalskilaboðin. Rétt eins og segja mætti að Ingvartsen spyrji okkur í því verki hvaða eiginleikar felist í konfettíi, og um leið hvers konar fyrirbæri það sé, þá eru listamennirnir í Eyðum að velta fyrir sér fljótandi eiginleikum plastsins. Skilaboðin eru fólgin í miðlinum og miðillinn er plast.

Það eru ekki margar sýningar í íslensku leikhúsi sem skapa úr slíkum efnivið, og allt of fáir hópar á borð við Marmarabörn. Eyður eru annað verk hópsins og mun betur samansett en Moving Mountains, fyrsta verk hans, en það má nefna að dramatúrginn Igor Dobricic hefur eflaust haft talsvert um uppbyggingu beggja verka að segja, og það er frískandi að fá sjónarhorn frá erlendum dramatúrg í íslenskt sviðsverk.

Stjarna sýningarinnar er þó Guðný Hrund Sigurðardóttir sem vinnur þrekvirki með þeim búningum sem hún nær að hanna úr plasti á flytjendur. Hún á mikinn þátt í því að gera verkið að sjónarspili sem er þess vert að sjá, en það eru Eyður svo sannarlega þótt mig gruni að hópurinn hafi í sér að gera jafnvel enn betur. Það var vísir að einhverju mögnuðu í Moving Mountains en talsverður byrjendabragur sem myndast ekki vegna reynsluleysis listamanna með miðilinn, heldur vegna reynsluleysis þeirra í að vinna saman. Það sést á Eyðum að hér hefur verið komið á góðu samstarfi með skýrri sýn, en ég hef trú á því að þriðja verkið sem þau geri sé verkið sem þeim hafi verið ætlað að semja saman.

En hvað get ég að lokum sagt um sýninguna, um vatnið og plastið? Það er kannski ekki annað en viðeigandi að vitna í söngkonuna úr dönsku Europop-sveitinni Aqua, hana Lene Nystrøm sem svo skemmtilega komst að orði í smellinum Barbie girl. Life in Plastic, it’s fantastic: Plastað líf, það er stórkostlegt.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Eyður, Kettir og útskriftarsýning Ljósmyndaskólans

Myndlist

Sálumessa plasts og sundbolti

Leiklist

Djöfullinn dansar í Þjóðleikhúsinu

Leiklist

Leikhúsi og kvikmynd teflt saman í eina heild