Hugnast ekki að rjúfa veginn

07.08.2018 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Þjóðvegur eitt vestan Kirkjubæjarklausturs er enn lokaður þar sem vatn úr Skaftárhlaupi flæðir yfir hann. Þó að hægt hafi á hlaupinu hefur rennslið yfir veginn ekkert minnkað.

Sérfræðingar Vegagerðarinnar eru að kanna aðstæður. Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík segir ólíklegt sé að rjúfa þurfi veginn eins og staðan er núna. „Staðan er óbreytt í Eldhrauni eins og er. Við erum að fara að skoða þetta. En það er búið að opna F-208 Fjallabak, Landmannalaugar, Eldgjá og niður að Búlandi.“ Hann segir að þeim hugnist ekki að rjúfa veginn en sagt var frá því í fréttum í morgun að það væri eitt af því sem til skoðunar væri. Rennslið yfir þjóðveginn er ekkert að minnka, að sögn Ágústs, heldur standi það í stað. 

Björgunarsveitin Kyndill á Kirkjubæjarklaustri hefur staðið vaktina við vegalokanir og beint ökumönnum af þjóðveginum á Meðallandsveg. Þau standa vaktina áfram í dag. Hörður Daði Björgvinsson, svæðisstjórnarmaður björgunarsveitarinnar, segir að tekinn sé einn klukkutími í einu. Starf björgunarsveitarinnar hafi gengið vel. Nokkrir erlendir ferðamenn höfðu ekki heyrt af hlaupinu. „Þeir hafa ekki allir heyrt af þessu en 99 prósent eru mjög skilningsríkir og fara bara þessa aukaslaufu þannig að það gengur bara mjög vel,“ segir Hörður.

Frá því að hlaupið hófst og þar til á miðnætti höfðu flætt 320 gígalítrar af vatni, samkvæmt mæli við Sveinstind. Fjörutíu hlaup hafa komið í Skaftá frá 1955 og með borist aur í hraunið sem hefur því orðið þéttara með árunum. Þrátt fyrir að hlaupið sé nú að minnka er rennslið fyrir neðan hraunið og yfir veginn enn óbreytt. Snorri Zóphóníasson er sérfræðingur í mælarekstri hjá Veðurstofu Íslands. „Það er vegna þess að þegar hlaup verður þá flæðir áin yfir bakka sína, það flæðir út í hraunið, meira en venjulega og þetta er söfnun af vatni í hraunið. Þó að hámarksrennsli sé náð þá rennur enn þá mikið, hlaupið stendur yfir og það bætir stanslaust í hraunið. Á meðan ekki er skrúfað alveg fyrir þá hækkar í,“ segir Snorri. Hann líkir hrauninu við ílát sem látið sé renna í. Þrátt fyrir að það hægi á rennslinu í ílátið þá hækkar yfirborðið þar til skrúfað sé fyrir. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi