Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hugmyndir um að reisa nýja flugstöð

19.07.2012 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Á næstu mánuðum verður tekin ákvörðun um hvort ráðist verður í að stækka Leifsstöð eða hvort ný flugstöð verður reist á Keflavíkurflugvelli. Allt stefnir í að metfjöldi farþega fari um flugstöðina á þessu ári.

Metfjöldi í ár

Umferð um flugstöðina í Keflavík dróst saman eftir hrun en hún hefur náð sér hratt á strik og í ár stefnir í að metfjöldi farþega fari um stöðina. Þetta þýðir að flugstöðin er að verða of lítil. Um hana geta farið þrjár og hálf milljón farþega á ári, en þá er miðað við að þeir dreifist jafnt yfir daginn. Í Leifsstöð er dreifingin afar ójöfn. Þar er mjög mikil umferð á morgnana og síðdegis en minna aðra hluta sólarhringsins.

Meira í vændum

Á þessu ári eru það sautján flugfélög sem sinna áætlunarflugi til og frá Keflavíkurflugvelli og hafa aldrei verið fleiri. Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, segir að fleiri hafi sýnt því áhuga að bjóða upp á ferðir og einnig vilji þeir sem fyrir eru bæta við sig áfangastöðum.

Stækkun eða ný stöð

Flugstöðin var stækkuð um aldamót þegar suðurbyggingin var reist. Þá þegar voru gerðar áætlanir um frekari stækkun flugstöðvarinnar. Nú eru uppi efasemdir um þær framkvæmdir og yfirhöfuð hvort sjálf flugstöðin henti sérstaklega vel til stækkunar. Því hefur verið rætt um að byggja nýja flugstöð á svæðinu. Hlynur segir að ákvörðun um þetta verði tekin á næstu mánuðum og gert er ráð fyrir að menn þurfi að ráðast í framkvæmdirnar á árunum 2014 til 2016 ef fjölgun farþega verður í samræmi við spár. Hlynur segir að ekki sé enn ljóst hvað framkvæmdirnar muni kosta.