Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hugmynd Sigmundar að Hafnartorgi hafnað

11.04.2016 - 18:00
Hafnartorg. Byggingarreitur við Tollhúsið þar sem Landstólpi þróunarfélag reisir íbúðarhús og skrifstofu- og verslunarhúsnæði.
 Mynd: ruv
Nýbyggingar við Hafnartorg verða reistar samkvæmt upphaflegri hönnun PK arkitekta. Ekkert verður af breytingum í samræmi við tillögur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra.

Reykjavíkurborg hefur samþykkt leyfi til að ráðast í byggingu samkvæmt teikningunum PK arkitekta, segir Guðni Rafn Eiríksson, einn eigenda Reykjavík Developments. Fyrirtækið, sem áður hét Landstólpi þróunarfélag, stendur að byggingunni. Guðni býst við að framkvæmdir hefjist í þessum mánuði. Stundin greindi frá þessu í dag.

Ekki hafa allir verið á eitt sáttir um nýbyggingar sem rísa eiga í miðbæ Reykjavíkur, við Hafnartorg. Fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kallaði þær skipulagsslys – það mesta í Reykjavík í seinni tíð. Þá sagði hann þörf á að þar til bær stjórnvöld gæti þess að þau miklu verðmæti sem liggja í sögulegri byggð glatist ekki. Þá var hafnargarður sem fannst á lóðinni friðlýstur í október, að tillögu Minjastofnunar Íslands.

Greint var frá því 21. janúar að Landstólpi þróunarfélag hefði boðist til að taka hönnun bygginganna á Hafnartorgi til endurskoðunar í samráði við forsætisráðuneytið. Stefán Thors, húsameistari ríkisins, hefur haft umsjón með verkefninu.

Guðni segir að upphaflega hafi málið átt að taka þrjár vikur. Engir fundir hafi þó verið haldnir fyrr en um mánuður var liðinn. Þá hafi fulltrúar forsætisráðuneytisins lagt fram mynd af mögulegu útliti húsa við Hafnartorg.

Þetta voru ansi róttækar breytingar. Og bara ein hlið á húsinu, þannig að það var ekki búið að vinna þetta mikið.

Segir Guðni Rafn Eiríksson. Þeim hafi verið bent á að myndin gengi lengra en heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi. Myndin var birt á laugardag í Reykjavík vikublað, á blaðsíðu 6. 

Þeir ætluðu að skoða það. En síðan höfum við ekki heyrt neitt í þeim.

Guðni segir að áætlað sé að byggingarframkvæmdir hefjist síðar í þessum mánuði. Hann segir að afskipti ríkisins – hugmyndir forsætisráðherra um samstarf, sem ekkert varð af og friðun hafnargarðs á lóðinni – hafi tafið verkefnið um marga mánuði og valdið mikilli óvissu. Þá segir Guðni að fyrirtækið Reykjavík Developments hafi alltaf áskilið sér rétt til að krefja ríkið um skaðabætur vegna framgöngu þess.

Guðni segist þó reiðubúinn til að ræða við mögulega leigutaka og aðlaga byggingar að þörfum þeirra, eins og venja er í fasteignaviðskiptum. Hann segir að fyrirtækið hafi þó ekkert heyrt meira frá forsætisráðuneytinu eða Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, vegna málsins.