Hugljúfar og áhættulitlar yngismeyjar

Mynd: Sony Pictures / Sony Pictures

Hugljúfar og áhættulitlar yngismeyjar

02.02.2020 - 17:00

Höfundar

Leikstjórinn Greta Gerwig tekur ekki mikla áhættu með þaulreyndan efnivið í kvikmyndinni Little Women, segir Marta Sigríður Pétursdóttir gagnrýnandi.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Sjöunda kvikmyndaaðlögun Little Women eða Yngismeyja – eins og titill þessa sígilda og sívinsæla bókmenntaverks bandaríska rithöfundarins Louisu May Alcott hefur verið þýddur á íslensku – hefur litið dagsins ljós og er eitt þessara verka sem stöðugt gengur í endurnýjun lífdaga. Linnulausum vinsældum Little Women er vafalaust aðalpersónunni að þakka, hinni þrautseigu og ástríðufullu Jo sem lætur hvorki kvennakúgun 19. aldarinnar né fjárskort fjölskyldu sinnar stöðva draum sinn um að verða rithöfundur. Greta Gerwig, leikstjóri þessarar nýjustu útgáfu Little Women þakkar persónunni Jo þá trú á því að hún sjálf gæti skrifað og orðið rithöfundur. Þetta er því að mörgu leyti persónuleg mynd fyrir hana en Gerwig þurfti að hafa töluvert fyrir því að sannfæra stjórnendur hjá Sony um að hún væri rétta manneskjan til þess að leikstýra myndinni. Eftir velgengni Lady Bird frá árinu 2017 sem var frumraun hennar í leikstjórn var gatan greið. Gerwig er einnig þekkt sem leikkona en hennar þekktasta mynd er Frances Ha þar sem hún fór með titilhlutverkið en myndinni var leikstýrt af Noah Baumbach, en hann og Gerwig hafa verið par í fjölda ára. Mynd hans Marriage Story keppir einmitt við Little Women í nokkrum flokkum á Óskarsverðlaununum þar á meðal um bestu myndina. Hvorugt þeirra er hins vegar tilnefnt sem besti leikstjóri en Little Women er tilnefnd til samtals sex óskarsverðlauna. Þar á meðal er Greta tilnefnd fyrir besta kvikmyndahandritið byggt á áður útgefnu efni þannig að áhrif og arfleifð Lousiu May Alcott eru óneitanlega nokkuð mögnuð.

Fyrir þá sem ekki þekkja til sögunnar kom Little Women fyrst út í Bandaríkjunum árið 1868 og fjallar um systurnar Meg, Jo, Beth og Amy March, móður þeirra sem aldrei er kölluð annað en Marmee og nágranna þeirra og stórvin Laurie. Sögusvið bókarinnar er Concord í Massachusetts, faðir systrana er fjarverandi en hann tekur þátt í borgarastríðinu. Þær mæðgur þurfa að kljást við fátækt og skort þrátt fyrir að fjölskyldan teljist til heldra fólks. Þær systur láta þó ekki deigan síga og finna bæði mikinn félagsskap og styrk hver í annarri í þrengingum lífsins og þeim kvöðum sem konum á þessum tíma voru settar og hljóta bæði metnaðarfullt og menningarlegt uppeldi. Þannig takast á raunsæisleg sjónarmið gagnvart mögulegum efnahagslegum ávinningi af hjónabandi og þrá eftir sjálfstæði, ævintýrum og rómantískri ást. Rauði þráðurinn í gegnum Little Women og ástæða þess af hverju myndin hefur talað svo sterkt til kvenkyns lesenda og áhorfenda er hins vegar alls ekki rómantísk ást, þó svo að sambönd Jo við Laurie og þýska prófessorinn Friedrich Baher skipi veigamikinn sess í sögunni, heldur einmitt barátta og linnulaus metnaður Jo til þess að verða rithöfundur sem hefur heillað. Efniviður Little Women á þannig margt sameiginlegt með skáldsögum Jane Austen, einna helst Hroka og hleypidómum sem einnig fjallar um fjörugan systrahóp sem þarf að gifta og helst til fjár.

Little Women er þó reyndar flokkuð sem bók fyrir börn og unglinga sem þýðir að margir lesendur koma fyrst að bókinni ungar og hrifnæmar. Þannig var það líka með Gretu Gerwig sem las bókina sem barn og unglingur en það var eftir að hún endurlas bókina í kringum þrítugt sem hún sannfærðist um tímalaust ágæti sögunnar og hinnar femínísku baráttu Jo March, sem endurómar í hennar eigin baráttu fyrir því að fá að leikstýra myndinni sjálf.

Sjálf hef ég aldrei lesið bókina en sagan af systrunum kom til mín í gegnum kvikmyndaaðlögun sem var gerð árið 1994 og skartaði Winonu Ryder í hlutverki Jo, Claire Danes sem Beth, Kirsten Dunst sem Amy á barnsaldri, Susan Sarandon í hlutverki Marmee, Christian Bale lék svo Laurie og Gabriel Byrne lék svo þýska prófessorinn. Hefur þessi mynd fylgt bæði mér, systrum mínum og þónokkrum vinkonum síðan og er ákveðin hefð að horfa á hana á hverju ári í kringum jólin. Það var því með mikilli eftirvæntingu og forvitni sem ég fór að sjá þessa útgáfu Gerwig.

Mikið hefur verið rætt um það að aðlögun Gerwig fari þá nýstárlegu leið að gera mörkin á milli persónu Jo March og höfundarins Lousu May Alcott óljós, þannig er raunverulegt æskuheimili Lousiu May Alcott notað sem sviðsmynd heimilis March fjölskyldunnar í kvikmyndinni og undir lok myndarinnar verða skilin á milli líf höfundarins og skáldskaparins ennþá óljósari þegar Jo þráttar við bókaútgefanda um örlög aðalpersónunnar sem verður að vera gift í lok sögunnar að hans sögn, annars selst hún ekki, og tryggir sér höfundarrétt eigin verks. Louisa May Alcott giftist sjálf aldrei og varð á endanum vellauðug af velgengni sagnabálksins um March fjölskylduna á meðan Jo giftst Bhaer gamla og opnar skóla fyrir drengi með honum. Það er meira en sennilegt að Alcott hafi þurft að sætta sig við markaðslögmálin og gera málamiðlun miðað við örlög Jo í bókinni, kannski ekki svo ólíkt því sem kvenleikstjóri, eða hvaða leikstjóri sem er, í Hollywood þarf að gera.

Annað sem þykir nýstárlegt í þessari aðlögun Gerwig er val hennar á leikurunum sem leika Laurie og prófessor Bhaer, en internetið hefur á seinni tímum flokkað Laurie sem svokallaðan „fuckboy“, en hann er eirðarlaus sjarmör sem lýsir yfir ódauðlegri ást í garð Jo sem hafnar óhjákvæmilega bónorði hans. Í kjölfarið fer hann á kvennafar, fyllerí og flandur um Evrópu þangað til hann hittir yngstu systurina Amy sem hann svo giftist á endanum. Sem sagt nokkuð laus í reipunum og ég leyfi mér að fullyrða að mörgum ungum áhorfendum og lesendum Little Women í gegnum tíðina hafi þótt gamli, þýski prófessorinn sem Jo endar með heldur ófýsilegur kostur fyrir kvenhetjuna okkar. Gerwig vinnur einstaklega vel úr þessu vandamáli með því að yngja upp prófessorinn, velja hinn strákslega og sjarmerandi Timothée Chalamet í hlutverk Laurie – það er auðvelt að skilja af hverju Jo vill ekki giftast honum - og svo að gera mörk skáldskapar og ævihlaups Alcott óljósari en áður hefur verið gert í aðlögunum.

Aðlögun Gerwig bætti við nýjum víddum í persónum bæði Beth og Marmee og áhorfendur fá að kynnast lífi Meg eftir að eiginmaðurinn og börnin bætast við hjá henni. Ég var á heildina litið hrifin af myndinni og naut hennar. Mér fannst yfirleitt skemmtilega og vel valið í hlutverk, þó svo að mér þætti Jo leikin af Saoirse Ronan væri ekki jafn góð og Winona Ryder í ’94 útgáfunni. Florenece Pugh er frábær í hlutverki Amy og bætir við vigt í karkterinn, enda er hún og reyndar Ronan með óskarstilnefningu fyrir leik sinn í myndinni. Laura Dern leikur svo Marmee og Meryl Streep leikur hina sérvitru og vellauðugu piparjónku Aunt March. Annað element í myndinni sem kemur ferskt fyrir sjónir eru búningarnir sem hafa á sér hipsteralegan blæ og sumar múnderingar Jo gæti maður alveg eins séð á gestum á opnun myndlistarsýningar.

Little Women er annars frekar hefðbundin períódu-mynd. Gerwig hefur ekki tekið neinar stórkostlega áhættu, leikaravalið endurspeglar til dæmis ekki fjölbreytileika nútímasamfélaga því allir leikararnir eru hvítir. Þannig er The Favorite eftir Yorgos Lanthimos dæmi um mun frumlegra búningadrama og aðlögun Andreu Arnold frá 2011 á Fýkur yfir hæðir gerði djarfar tilraunir í aðlögun sinni á sígildu bókmenntaverki, meðal annars með því að velja James Howson í hlutverk Heathcliff en Howson er af blönduðum uppruna.

Little Women er eftir sem áður fínasta afþreying og Gerwig hefur heiðrað bókmenntaverkið  og persónu Jo og Louisu May Alcott með þessari ágætu og hugljúfu aðlögun.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Ljóðræn fegurð en langdregin og endaslepp

Kvikmyndir

Vítahringur ofbeldis sem erfist milli kynslóða

Kvikmyndir

„Ég vildi bara leggjast undir sæng og gleyma“

Kvikmyndir

Áhugavert, rásandi en vandað Gullregn