Huga þarf vel að sálrænum afleiðingum sóttkvíar

19.03.2020 - 07:47
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Það getur haft alvarlegar sálrænar afleiðingar fyrir fólk að dvelja í sóttkví. Einkenni sem fólk kann að upplifa eru meðal annars áfallastreita, ruglingur og reiði. Þetta kemur fram í vísindagrein sem nokkrir sálfræðingar hafa birt í vísindaritinu The Lancet.  

Neikvæðar sálrænar afleiðingar verða meiri eftir því sem sóttkvíin varir lengur, ef fólki leiðist, fær ekki nauðþurftir, fær ekki fullnægjandi upplýsingar, hefur fjárhagsáhyggjur og er fordæmt. Niðurstaða höfunda er meðal annars sú að sérfræðingar þurfi að útskýra vel fyrir fólki hvers vegna þörf er á sóttkvínni. 

Í greininni taka höfundar skýrt fram að þótt sálrænar afleiðingar af sóttkví séu miklar geti sálrænar afleiðingar þess að beita sóttkví ekki, og þar með leyfa sjúkdómi að breiðast út, orðið enn verri. 

Í greininni er tekið fram að huga þurfi sérstaklega að stöðu heilbrigðisstarfsfólks sem lendir i sóttkví. Þeir mæti fordómum eins og aðrir. Þá þurfi líka að huga að áhyggjum sem heilbrigðisstarfsfólk kann að hafa af því að fjarvera þeirra frá vinnu vegna sóttkvíar auki álag á vinnustaði þeirra og samstarfsmenn. Tryggja þurfi að heilbrigðisstarfsmenn sýni hver öðrum stuðning. 

Hér má sjá greinina í The Lancet. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi