Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Huang Nubo fær Grímsstaði í 40 ár

02.05.2012 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Huang Nubo fær Grímstaði á Fjöllum á leigu til 40 ára samkvæmt tillögum sem lagðar verða fyrir ríkisstjórn á föstudag. Lagt er til að hlutafélag í eigu sveitarfélaga á Norður- og Austurlandi kaupi jörðina.

Atvinnuþróunarfélögin í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu hafa skilað útfærslu á því með hvaða hætti sveitarfélög á Norður- og Austurlandi geti eignast land á Grímsstöðum á Fjöllum í því skyni að leigja það kínverska fjárfestinum Huang Nubo. Samkvæmt heimildum fréttastofu er þar lagt til að sveitarfélögin stofni hlutafélag sem kaupi ríflega 70 prósenta hlut jarðarinnar. Sveitarfélögin sjálf leggi til eigið fé við stofnun félagsins, en ekki er gert ráð fyrir skuldsetningu eða ábyrgðum sveitarfélaganna tengt kaupunum. 

Meðal þess sem lagt er til er að íslenskt félag Huangs Nubo leigi landið til 40 ára og greiði leigufé fyrirfram. Kaup sveitarfélaganna á landinu verði þannig fjármögnuð með fyrirframgreiddri leigu. Rík áhersla er lögð á að eignarhaldið verði óumdeilt í höndum kjörinna fulltrúa af Norður- og Austurlandi. Huang Nubo hugðast kaupa umrædda landareign fyrir tæplega 860 milljónir króna á sínum tíma, en var synjað um kaupin af stjórnvöldum eins og kunnugt er. 

Nefnd um veitingu ívilnana vegna nýfjárfestinga hér á landi hefur um nokkurt skeið haft til umsagnar beiðni Huangs Nubo um uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum. Heimildir fréttastofu herma að nefndin hafi afgreitt erindið frá sér síðastliðinn mánudag og niðurstaða nefndarinnar sé jákvæð. Allt þetta mál, afgreiðsla ívilnunarnefndarinnar ásamt skýrslu atvinnuþróunarfélaganna um kaupin á Grímsstöðum verði svo lagt fram á ríkisstjórnarfundi á föstudag.

Í heildina er áætlað að fjárfestingar Huang Nubos á Grímsstöðum verði um 20 milljarðar króna og skapi 400-600 störf. Þar af 400 til frambúðar.