Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hryðjuverkum fækkar en handtökum fjölgar

16.06.2017 - 06:38
epa05460996 People attend a minute of silence, held for the victims of the 14 July terror attack in Nice, Nice, France, 07 August 2016. 85 people died and many were wounded after a truck drove into the crowd on the famous Promenade des Anglais during
Frá minningarathöfn í Nice um fórnarlömb árásarinnar þann 14. júlí 2016. 85 létust í árásinni. Árásarmaðurinn kenndi sig við Íslamska ríkið, sem lýsti voðaverki hans á hendur sér. Efasemdir eru þó uppi um raunveruleg tengsl ódæðismannsins við íslamisma.  Mynd: EPA
1.002 voru handteknir í ríkjum Evrópusambandsins í fyrra, grunaðir um aðild að eða áform um hryðjuverk. Það eru eilítið færri en 2015 en nær 230 fleiri en 2014. Á sama tíma hefur hryðjuverkum og tilraunum til hryðjuverka fækkað úr 226 árið 2014 í 142 á síðasta ári. 142 týndu lífi í hryðjuverkum í fyrra og 379 særðust. Þetta kemur fram í skýrslu Europol sem birt var í gær. Hryðjuverk öfgasinnaðra íslamista voru fá en fórnarlömb þeirra mörg og mikill meirihluti hinna handteknu úr þeirra röðum.

Ríflega helmingur allra hryðjuverka og hryðjuverkatilrauna í Evrópusambandinu 2016 var gerður í Bretlandi, þar sem 76 tilvik voru skráð. 23 tilvik voru skráð í Frakklandi, 17 á Ítalíu, 10 á Spáni, 6 í Grikklandi, 5 í Þýskalandi, 4 í Belgíu og eitt í Hollandi. Í 47 af þessum 142 tilvikum tókst hryðjuverkamönnum ætlunarverk sitt, hinir voru ýmist gripnir af lögreglu áður en þeir létu til skarar skríða eða mistókst að fremja sín voðaverk af einhverjum ástæðum öðrum.

Þjóðernis- og aðskilnaðarsinnar frömdu flest hryðjuverk

Langflest hryðjuverk og hryðjuverkatilraunir voru framin af öfgamönnum úr röðum þjóðernis- og eða aðskilnaðarsinna, eða 99. Öfga-vinstrimenn frömdu eða reyndu að fremja 27 hryðjuverk í fyrra, flest þeirra á Ítalíu, eða 16 talsins. Hryðjuverkum og hryðjuverkatilraunum öfgasinnaðra íslamista fækkaði hins vegar úr 17 í 13 milli áranna 2015 og 2016.

Flestir hinna handteknu íslamistar

Þessar tölur segja þó ekki allt, því af þeim 142 sem létu lífið í hryðjuverkum á síðasta ári féllu 135 í hryðjuverkum íslamista. Það kann að skýra það að einhverju leyti, að þrátt fyrir hlutfallslega fá hryðjuverk voru 718 af þeim 1.002 sem handteknir voru í fyrra vegna hryðjuverkatendra mála grunaðir um tengsl við öfgasamtök íslamista.

Á sama tíma fækkaði mjög þeim þjóðernis- og aðskilnaðarsinnum og öfga-vinstrimönnum, sem handteknir voru vegna hryðjuverka eða hryðjuverkatengdra mála. 84 þjóðernis- og aðskilnaðarsinnar voru handteknir 2016 á móti 168 árið áður, og grunuðum hryðjuverkamönnum úr röðum vinstri--öfgamanna fækkaði úr 67 í 31 á milli ára. 

Ofbeldisverk fasistafauta ekki skilgreind sem hryðjuverk

Úr röðum fasískra hreyfinga voru aðeins 12 handteknir vegna hryðjuverka og hryðjuverkatilrauna. Hins vegar varð umtalsverð aukning á margvíslegum ofbeldisverkum öfga-hægrimanna á síðustu misserum, sem einkum beinast að flóttafólki og minnihlutahópum af öðrum uppruna og trú en þorri heimamanna í hverju landi. Þótt þessi ofbeldisverk séu sögð líkjast hryðjuverkum um margt flokkast þau ekki sem slík og eru því ekki höfð með í tölfræðinni. 

Hér má nálgast skýrslu Europol.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV