Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hrun siðmenningar ekki óumflýjanlegt

Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir / Arnhildur Hálfdánardóttir

Hrun siðmenningar ekki óumflýjanlegt

06.10.2019 - 11:47

Höfundar

„Það sem ég var að reyna að átta mig á er hvar við erum á þessu rófi frá því að fara í gegnum mjög sársaukafulla umbyltingu á hagkerfinu eða fara í gegnum það sem mætti kalla skipulagða, yfirvegaða og réttláta umbyltingu. Því miður er það ekki lengur raunhæfur möguleiki vegna þess hvað við höfum beðið lengi.“ Halldór Þorgeirsson situr við eldhúsborðið heima hjá sér, fyrir framan hann er stílabók og í hana hefur hann teiknað skýringarmynd.

Næsti áratugur mikill úrslitaáratugur

Halldór er formaður loftslagsráðs stjórnvalda og starfaði lengi sem forstöðumaður hjá Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Bonn. Honum finnst gott að sjá hlutina fyrir sér myndrænt. Á skýringarmyndinni eru tveir kassar, undir öðrum þeirra stendur: Yfirveguð, skipulögð og réttlát umbylting. Undir hinum stendur: Glundroði, hörmungar. Á milli kassanna er lína og undir línunni stendur X? Hann veit ekki hvar á rófinu við erum. „Við höfum tapað miklum tíma, en spurningin er, er þetta allt orðið glatað og erum við komin yfir í umbyltingu sem þarf að gerast með glundroða, miklum hörmungum og hruni siðmenningar? ég tel það ekki vera. Að mínu mati skiptir mjög miklu máli að við horfumst í augu við hvað við höfum lítinn tíma en við megum ekki gefast upp, við erum á árinu 2019 og það er mjög ljóst að næsti áratugur verður mjög mikill úrslitaáratugur. Það hvar við stöndum árið 2030 kemur til með að skipta alveg feikilega miklu máli. Við getum ekki náð utan um þetta vandamál ef við erum í sömu stöðu árið 2030 og við erum í dag.“

Rætt er við Halldór Þorgeirsson í fyrsta þætti Loftslagsþerapíunnar, nýrrar þáttaraðar á Rás 1. Hér má hlusta á fyrsta þáttinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Myndin hans Halldórs.

Maðurinn aðal óvissuþátturinn

Við vitum ekki hvar við erum á rófinu en Halldór segir það ekki vegna þess að við þekkjum ekki loftslagsvísindin. „Nei, við vitum ansi mikið en óvissan, þegar kemur að því að spá um framtíðina er fyrst og fremst falin í því hvað mannkynið gerir, hver geta mannsins er, hvernig við bregðumst við.“ 

Af hverju viltu ekki hugsa um fjórar gráður? 

„Það er sífellt erfiðara að sjá fyrir sér að við komumst mjög nálægt einni og hálfri gráðu, baráttan er núna orðin um það hvort hægt verður að halda hlýnuninni undir tveimur. Hörmungarnar og afleiðingarnar, munurinn á þessu tvennu er feikilega mikill, þá fer fólk að spyrja: Hvernig eru þá þrjár gráður? Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér það efnahagskerfi og þau lífsskilyrði sem við viljum hafa við þrjár gráður og ég vil bara ekki hugsa um fjórar.“

Maður heyrir þetta oft, ég vil bara ekki hugsa um, þú hlýtur að hafa eitthvað hugsað um það fyrst þú ert búinn að ákveða að þú viljir ekki hugsa um það meir?  

„Ég kannski ætti að útskýra þetta aðeins, þetta er góð spurning. Ég veit ekki hvort þú hefur séð myndbönd þar sem verið er að skoða afleiðingar þess þegar bílar keyra á vegg á 60 kílómetra hraða, ég hef mikinn áhuga á að skilja það en ég hef engan áhuga á að skilja muninn á því að keyra á vegg á 60 km hraðaeða 120 km hraða. Það sem ég er í raun að segja er að tvær gráður eru svo skelfilegar, í raun og veru, þetta er svo mikil áhætta að láta jörðina hlýna um tvær gráður að mér finnst eiginlega ekki þurfa að fylla inn í spurningarnar um það hvers konar hrun við förum í gegnum.“ 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Sport að fá að sitja í hjá „þröskuldi“