Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hringvegi líklega lokað á Suðausturlandi

13.01.2020 - 09:25
Mynd með færslu
 Mynd: Google maps
Vegagerðin gerir ráð fyrir að loka þjóðvegi 1 frá Fosshóteli við Núpá að Jökulsáróni klukkan 14:30 eða 15:00 í dag og frá Markarfljóti að Vík vegna óveðurs. Lokunin yrði í gildi til klukkan sjö eða átta í fyrramálið.

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir suðausturland frá klukkan 15:00 í dag til klukkan eitt eftir miðnætti. Spáð er norðaustan 20 til 28 metrum á sekúndu, hvassast í Öræfum með vindhviðum yfir 40 metrar á sekúndu í vindstrengjum við fjöll. Spáð er skafhríð með lélegu skyggni og það verður ekkert ferðaveður. Hætta er á foktjoni. Í viðvörun veðurstofunnar segir að einnig sé nærri stórstreymt og vegna lágs loftþrýstings og áhlaðaneda megi búast við óvenju hárri sjávarstöðu á flóði. Einnig getur verið há öldhæð sums staðar við landið.

Appelsínugular viðvaranir eru einnig í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á miðhálendinu. Vegfarendur eru beðnir að fylgjast vel með færð og veðri áður en lagt er í langferð. 

Á Vestfjörðum er lokað um Steingrímsfjarðarheiði, á Klettshálsi er ófært eða stórhríð, vegurinn um Þröskulda er lokaður en Innstrandavegur er opinn.

Þungfært er frá Hofsósi í Ketilás en lokað þaðan í Siglufjörð.

Fréttin hefur verið uppfærð og fyrirsögn breytt eftir að tilkynning kom um að líklega yrði líka lokað á milli Markarfljóts og Víkur. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir