Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hringur á fingri framlenging á rödd

Mynd:  / RÚV

Hringur á fingri framlenging á rödd

05.11.2017 - 08:00

Höfundar

„Hringurinn fylgir hreyfingunum mínum og býr bæði til effekta á röddina og stjórnar hljóðum; hvernig það breytist, hvort það kemur inn eða út eða hækkar og lækkar. Það hentar mér vel af því að ég er mjög mikið á iði.“ Þannig lýsir Ásta Fanney Sigurðardóttir listamaður tækninýjunginni Wave, sem er völundarsmíð íslenskra sérfræðinga hjá fyrirtækinu Genki Instruments.

Wave er hringur hannaður fyrir tónlistarfólk og gerir því kleift að bæði semja og flytja tónlist á nýjan hátt. Hringurinn byggir á Blutetooth tækni og stýrir ýmsum eiginleikum hljóða. Hann er fyrsta vara Genki instruments. 

Notkunin er nokkuð einföld, þó að baki henni liggi flókin verkfræði. „Hringurinn nemur hreyfingar handarinnar, snúning og slátt og á þann hátt getur tónlistarmaður haft áhrif á hljóð, effekta, sett af stað skipanir eða í rauninni gert alls konar hluti með einfaldri og náttúrulegri hreyfingu,“ segir Haraldur Þórir Hugosson, þróunarstjóri Genki.

Mynd með færslu
 Mynd:  - RÚV

Mannleg tjáning með tæki

Áþekk fyrirbæri hafa verið kynnt til sögunnar, en hljóðfæri sem nota handastýringu hafa oftast verið hanskar eða annars konar áhöld. „Okkar vara er hugsuð meira þannig að leikmaður geti keypt hanaog bætt þannig litbrigðum mannlegrar tjáningar í sitt set-up,“ segir Ólafur Bogason framkvæmdastjóri Genki.

Halldór Eldjárn tónlistarmaður hefur unnið að þróun hringsins með Genki. „Aðalstyrkurinn finnst mér vera að hægt sé að nota hreyfingu til að tjá hluti. Sérstaklega í raftónlist þar sem maður vinnur oft með óaðgengileg hjóðfæri þar sem þarf dálítið langan tíma til að krukka í einhverjum tökkum. Þá getur þetta komið vel að gagni, bara með því að maður getur verið að breyta eða gera hljóð bara með hreyfingum,“ segir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd:  - RÚV
Ásta Fanney listakona.

Notar hringinn við tónsmíðar

Ásta Fanney listakona notar hringinn við tónsmíðar og flutning með hljómsveitinni AiYa. „Það virkar svo vel að gera þetta læv, þetta er svo lifandi. Þetta er svona eins og framlenging af puttanum á þér, og röddinni. Já, hringur sem er framlenging af röddinni.“

Fyrsta útgáfa af hringnum er tilbúin og verður afhent kaupendum síðar á árinu. Hringurinn var notaður í fyrsta sinn opinberlega á tónleikum hljómsveitarinnar AiYa á Airwaves í gærkvöldi. 

Nánari upplýsingar um Genki má finna hér.