Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hringdi yfir 50 sinnum í Neyðarlínuna

Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Karlmaður var handtekinn á höfuðborgarsvæðinu í nótt eftir að hafa hringt liðlega 50 sinnum í Neyðarlínuna. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að lögreglumenn hafi farið á heimili hans og rætt við hann en hann hafi ekki hætt að hringja. Maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Einn maður var handtekinn á þriðja tímanum í nótt eftir að hafa veist að dyraverði á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. 

Ungur maður var handtekinn í nótt grunaður um innbrot og þjófnað úr að minnsta kosti tveimur bílum. Hann var að sögn lögreglu í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu. 

 

Þrír ungir drengir voru handsamaðir í nótt fyrir að brjótast inn í bifreið ferðaþjónustu fatlaðra í austurborginni. Að sögn lögreglu var einn drengurinn sóttur á lögreglustöð af foreldri,einn var fluttur til ömmu sinnar og sá þriðji var fluttur á Stuðla. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV