Hrífandi leiksýning um þunglyndi

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Hrífandi leiksýning um þunglyndi

17.09.2018 - 20:00

Höfundar

Allt sem er frábært er hrífandi og hjartnæm leiksýning segir Hlín Agnarsdóttir gagnrýnandi. Valur Freyr Einarsson vinni þar hjörtu áhorfenda með smitandi leikgleði og orku.

Hlín Agnarsdóttir skrifar:

Leiksýningin Allt sem er frábært sem nú er sýnd á Litla sviði Borgarleikhússins er byggð á samnefndu leikriti eftir breska leikskáldið Duncan McMillan. Þetta er fjórða verkið sem sýnt er eftir McMillan hér á landi en Borgarleikhúsið sýndi meðal annars verk hans Fólk, staðir, hlutir við góðar undirtektir síðastliðið vor og mun taka það aftur til sýninga eftir áramótin. 

Kristín Eiríksdóttir þýðir verkið sem hefur verið staðfært og aðlagað að íslenskum aðstæðum af Ólafi Agli Egilssyni sem jafnframt er leikstjóri. Valur Freyr Einarson fer með eina hlutverkið og er ásamt Ólafi Agli skrifaður fyrir aðlögun þess. Hann er í hlutverki leikara sem trúir  áhorfendum fyrir reynslusögu úr lífi sínu, einkum af móður sem glímir við alvarlegt þunglyndi og geðhvarfasýki. Samhliða þeirri sögu rekur leikarinn sína eigin þroskasögu, hvernig hann sjálfur tekst á við erfiðleika og mótlæti vegna veikinda móðurinnar allt frá barnsaldri og fram á fullorðinsár.

Verkið veltir upp mörgum áleitnum spurningum um tilgang lífsins þar sem eitt af svörunum er fólgið í að minna sig stöðugt á allt það sem gerir lífið frábært, eins og til dæmis að synda allsber eða hlusta á Ninu Simone syngja ,,Feeling good.“ Leikarinn gerir hreinlega langa lista um hvaðeina sem gerir lífið þess virði að því sé lifað þrátt fyrir allt. Og listinn yfir allt það sem er frábært er auðvitað ekki tæmandi, ekki frekar en listin sjálf eins og Kött Grá Pje segir í leikskránni. En listinn er samt hressandi og skemmtilegur og síðast en ekki síst holl áminning um að þar sem er líf, er alltaf von. 

Þótt Valur Freyr sé eini leikarinn á leiksviðinu nýtur hann aðstoðar í fjölmörgum atriðum leiksins og sú aðstoð kemur frá áhorfendum. Leiksýningin er svokallað þátttökuleikhús þar sem áhorfendur eru virkjaðir til leiks. Það gefur sýningunni sérstakan blæ, engar tvær sýningar verða eins og það skapast rými fyrir spuna og leikgleði sem léttir auðvitað undir alvarlegu efninu. Vali Frey tekst að skapa notalegt andrúmsloft og traust milli sín og áhorfenda, enda bráðnauðsynlegt til þess að þessi tegund af sviðsetningu gangi upp. Annað væri klúður. Hann þarf í raun að semja við áhorfendur um þátttöku og það gerir hann af einstakri alúð.

Upp og niður tilfinningaskalann

Sýningin er einföld í uppsetningu, leikarinn situr á háum kolli á miðju sviði með áhorfendur allt í kringum sig og svipar helst til uppistandara. Hann styðst við örfáa leikmuni og tónlist sem leikur stóran þátt í allri frásögn og framvindu sýningarinnar. Ljósum er beitt í hófi en framkalla töfrandi andrúmsloft einkum í lokaatriði verksins. Valur Freyr á ekki í nokkrum vandræðum með að sýna okkur barnssálina sem þarf að kljást við þunglynda móður og þöglan föður. Hann leikur sögu unga mannsins af öryggi og hefur margt á valdi sínu, sveiflar sér lipurlega upp og niður tilfinningaskalann, sýnir okkur jafnt hrifningu og gleði sem biturð og bölsýni. 

Það leikur enginn vafi á því að Valur Freyr vann hjörtu áhorfenda með smitandi leikgleði og orku, söng og dansi. En það mæðir mikið á honum frá upphafi til loka sýningarinnar enda þarf hann að koma miklu efni til skila, jafnvel of miklu, en þar er ekki við hann að sakast heldur leikritið sjálft sem teygist örlítið á langinn í seinni hlutanum. Listinn um allt sem er frábært varð ef til vill of langur og endurtekningasamur. Lokaniðurstaðan er þó skýr, sýningin er hrífandi og hjartnæm í einlægni sinni, hún hvetur til samtals um mikilvæga þætti í mannlegri tilveru og er í flestu glimrandi vel af hendi leyst. Það væri alls ekki úr vegi að það samtal færi fram að lokinni sýningunni.