Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hrífandi bunraku-sýning í Tjarnarbíói

Mynd: . / Tjarnarbíó

Hrífandi bunraku-sýning í Tjarnarbíói

04.05.2017 - 16:05

Höfundar

Sú virðing, sem aðstandendur sýningarinnar Á eigin fótum sýna hinum ungu áhorfendum sínum, hreif leikhúsgagnrýnanda Víðsjár.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Nú er hún Agnes Þorvaldsdóttir Wild, sú sem færði okkur í fyrra „Kate“ kvennasögur frá hermámsárunum, mætt á nýjan leik í Tjarnarbíó. Í þetta sinn með íslenska Bunraku sýningu eftir leikhópana Miðnætti og Lost Watch Theatre sem sköpuð er fyrir yngri börn og heitir: Á eigin fótum.  Bunraku? Hvað í dauðanum er það? Það er japanskt brúðuleikhús sem á sér þriggja alda sögu og hefur náð útbreiðslu síðustu áratugina víða um lönd í ýmsum ólíkum útgáfum. Brúðuleikhús var það eitt sinn fyrir alþýðuna andstætt Nohleikhúsinu sem einungis var framið fyrir yfirstéttina. Í hinni gömlu hefðbundnu útgáfu er brúðum úr viði í nær hálfri stærð líkama stjórnað af þremur sýnilegum svartklæddum leikurum, söngvari syngur efnisþráðinn og svo eru einnig tónlistarmenn á sviðinu. 

Í sýningunni í Tjarnarbíó  er enginn söngvari, en tónlistarmenn og brúðan aðeins ein, sem stýrt er af þremur sýnilegum ekki svartklæddum leikurum. Fjórði leikarinn og tónlistarmenn leika á móti brúðunni við ýmar aðstæður.  Brúðunni er stýrt þannig ‒ með orðum leikstjórans Agnesar: „Einn heldur um höfuðið og vinstri höndina, annar um rassinn og hægri höndina og sá þriðji stjórnar fótunum“. Þannig lifnar brúðan svo sannarlega við og verður að sex ára stelpunni Ninnu sem bjó í gamla daga, nánar tiltekið, á millistríðsárunum í Reykjavík. Hún er send í sveit eins og mörg börn þeirra tíma og íslensk börn í bæjum langt fram á sjöunda áratuginn.  Það er faðir hennar sem fylgir henni þangað , þau fara yfir fjöll og firnindi í ýmsum faratækjum og lenda loks í hinni afskekktu sveit. Þar er Ninna skilin eftir og er í fyrstu ekki mönnum sinnandi í þessum nýju framandi heimkynnum. En hundurinn á bænum og kálfurinn sigra loks hjarta hennar. Hún lendir í ýmissi hættu en lærir að standa á eigin fótum.

Eva Björg Harðardóttir á heiðurinn af gerð brúðunnar sem er úr viði en andlit hennar er óhreyfanlegt, svipbrigðalaust,  fas búks og látbragð handleggja og fóta  tjá  tilfinningar hennar og viðbrögð við umhverfinu.  Einn stjórnenda gefur frá sér nauðsynleg hljóð og raular fyrir hana lagstúf sem er leiðarstef í sýningunni. Eina orðið sem myndað er nafn brúðunnar: Ninna. Hreyfingarnar, einfaldar og skýrar og skemmtilegar virðast vel samhæfðar að minnta kosti fyrir þann sem er að horfa á Bunraku í fyrsta sinni. Eva Björg á einnig heiðurinn af einfaldri litskrúðugri leikmyndinni  og dýrum og fuglum og ýmis konar farartækjum sem eru búin til á staðnum af leikurunum af miklu ímyndunarafli úr efnisbútum, blikkfötum, hrífum, skóm, ferðatösku og klemmum.

Leikarar og brúðustjórnendur eru Nick Candy, Olivia Hirst, Rianna Dearden og Þorleifur Einarsson. Það er einhver alvarleg, einbeitt ára yfir þeim öllum í leiknum  en andrúmsloftið fullt af hlýju og gleði og í því eiga stóran þátt höfundar tónlistarinnar þær Sigrún Harðardóttir og Margrét Arnardóttir sem leika  á fiðlu, harmóniku og fleiri hljóðfæri. Framvindan er hæfilega hröð og skýr að minnsta kosti fyrir þann sem enn kannast við blikkfötur og tréhrífur.  Frásögnin er unnin úr sögum sem amma leikstjórans sagði henni þegar hún var barn, en búningar og yfirbragð sýningar ekki með sérstakri skírskotun í íslenska menningu. Enda fjölþjóðlegur hópur sem stendur að sýningunni og hún er unnin sem farandsýning  milli landa.

Það er margt sem hrífur í þessi sýningu, hvernig brúðan lifnar, hvernig ímyndunaraflið er virkjað, hlýtt og glatt andrúmsloftið en þó kannski hvað mest sú virðing sem leikhópurinn sýndi hinum ungu áhorfendum.